Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar rannsökuðu flak sprengjuflugvélarinnar Flying Fortress sem fórst á Eyjafjallajökli í seinni heimstyrjöldinni

Mánudagur 27. september 2004.

 

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar rannsökuðu flak sprengjuflugvélarinnar  ,,Flying Fortress” sl. föstudag.  Flugvélin brotlenti á Eyjafjallajökli í september 1944.  Flugmennirnir höfðu villst af leið í slæmu veðri á leið til Bretlands.  Til allrar hamingju komst öll áhöfnin af.  Einn þeirra kom nýlega í heimsókn til Íslands í boði Árna Alfreðssonar bónda sem býr í grennd við slysstaðinn.

 

Áður en sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru á staðinn, fengu þeir upplýsingar um vopnabúnað flugvélarinnar úr gagnagrunni NATO og frá RAF safninu í Hendon sem er rétt fyrir utan London.  Í vélinni voru 13 * 50 kalíbera (12.7 mm) Browning M2 vélbyssur.  Nafnið ,,Flying Fortress”  (fljúgandi virki) á því vel við.  Sumar byssurnar voru fjarstýrðar en aðrar handvirkar. Þessi varnarbúnaður var mikilvægur fyrir áhöfnina í flugorrustum því að flugher bandamanna fór í sprengjuleiðangra að degi til yfir Evrópu á þessum tíma.

 

Ekki hefur verið staðfest hvort sprengjur voru í flugvélinni þegar hún hrapaði en það hefur verið talið ólíklegt þar sem hún var að flytja nýþjálfaða flugáhöfn frá Bandaríkjunum til Bretlands er slysið varð.

 

Sprengjusérfræðingarnir rannsökuðu slysstaðinn með aðstoð Árna Alfreðssonar en hann hefur fylgst með staðnum í gegnum tíðina og rannsakað sögu bæði flugvélarinnar og áhafnar hennar.  Nokkuð magn hættulegra hluta var fjarlægt úr vélinni, þ.á.m. vélbyssur.  Aðrir hættulegir hlutir, sem ekki var talið öruggt að flytja, voru merktir sérstaklega.  Sprengjueyðingarsveitin þarf að fara aðra ferð upp á jökulinn til að ljúka verkefninu.

 

Frásögn og myndir: Adrian King sprengjusérfræðingur 

Þýðing: Dagmar Sigurðardóttir

 

 

 

 

 

 

Árni Alfreðsson bóndi þekkir vel sögu sprengjuflugvélarinnar Flying Fortress og áhafnar hennar.