Öryggisvika sjómanna 24. september - 1. október - Forvarnir auka öryggi

Fimmtudagur 23. september 2004.

 

Í tengslum við alþjóðasiglingadaginn 26. september n. k. er í annað sinn  haldin Öryggisvika sjómanna dagana 24. september – 1. október 2004. Þema hennar er að þessu sinni “Forvarnir auka öryggi”.

 

Dagskrá vikunnar er í grófum dráttum þessi:

 

Föstudaginn 24. september, kl. 10:45 leggur Sæbjörg, skólaskip Slysavarna­félagsins Landsbjargar, úr höfn frá Miðbakkanum í Reykjavík. Siglt verður út á Ytri höfnina þar sem Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, síga úr þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð. Um kl. 11:00 setur ráðherra Öryggisviku sjómanna 2004 og að því loknu verður kynning á dagskrá vikunnar.

 

Á Alþjóðasiglingadaginn, sunnudaginn 26. september, kl. 13:00 til 16:00 verða hátíðarhöld í tilefni dagsins á Miðbakkanum í Reykjavík. Með hátíðarstjórn fer Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar Alþingis.  Þar verða til sýnis varðskip, hafrannsóknarskip, björgunarskip SL og fiskibátar auk þess sem skólaskipið Sæbjörg verður opin gestum. Þar verður m.a. kynning á áætlun um öryggi sjófarenda og kaffisala slysavarnakvenna. Dregið verður í happdrætti og er óvæntur vinningur sem tengist öryggismálum sjómanna.  Miðar verða afhentir á staðnum.

 

Landhelgisgæslan mun sýna björgun úr sjó með þyrlu kl. 13:30 og  keppt verður  í flotgallasundi milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar kl. 14:30.

 

Föstudaginn 1. október, kl. 10:00 – 18:00 lýkur Öryggisvikunni með ráðstefnu um öryggismál sjómanna í hátíðarsal Sjómannaskólans í Reykjavík. Með fundarstjórn fara Unnur Sverrisdóttir, formaður verkefnisstjórnar áætlunar um öryggi sjófarenda og Guðjón Á. Einarsson, framkvæmdastjóri Félags skipstjórnarmanna. Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi:

  • Setning ráðstefnu.
  • Áætlun um öryggi sjófarenda. Siglingastofnun Íslands.
  • Skiparannsóknir Siglingastofnunar Íslands. Siglingastofnun Íslands.
  • Hvað er sjóveiki? Hannes Petersen læknir.
  • Vinnuvistfræði fyrir sjómenn. Magnús H. Ólafsson, sjúkraþjálfari.
  • Kynning á öryggisfulltrúakerfi. Ágúst Þorsteinsson, Öryggiskeðjan ehf.
  • Notkun þjónustu- og þjálfunarhandbóka. Siglingastofnun Íslands.
  • Reynslan af forvörnum í skipum. Gunnar Tómasson, Þorbjörn-Fiskanes hf.
  • Reynslan af forvörnum í flutningaskipum. Eyþór H. Ólafsson, Eimskip.
  • Lokaerindi. Ásbjörn Óttarsson skipstjóri.
  • Umræður og fyrirspurnir.
  • Pallborðsumræður.

 

Veitingar á ráðstefnunni verða í boði samgönguráðuneytis og Siglingastofnunar Íslands. Meðan á ráðstefnu stendur verður hin glæsilega sýning “Í örugga höfn” höfð uppi í Sjómannaskólanum en þar er um að ræða gamlar og nýjar myndir tengdar sjó og siglingum.

 

Samgönguráðuneytið, Siglingastofnun Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landhelgisgæsla Íslands, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands.

 

 

 

Auglýsing á pdf- formi