Stýrimenn varðskipsins Týs aðstoðuðu veikan skipverja á togbátnum Siglunesi

Miðvikudagur 8. september 2004.

 

Skipstjórinn á togbátnum Siglunesi SH-22 hafði samband við varðskipið Tý í gærkvöldi og óskaði eftir aðstoð vegna veiks skipverja sem missti meðvitund af og til.  Skipin voru þá stödd á Breiðafirði.  Að sögn Thorbens Lund yfirstýrimanns varðskipsins fór hann ásamt 2. stýrimanni með léttbát varðskipsins yfir að Siglunesi og voru þeir komnir um borð 10 mínútum síðar með skyndihjálparbúnað og hjartastuðtæki úr varðskipinu.  Stýrimennirnir hlúðu að sjúklingnum og voru hjá honum í skipinu þar til það kom til hafnar í Ólafsvík og fylgdu honum þaðan í sjúkrabíl á heilsugæslustöðina. Eftir skoðun læknis var hann sendur með sjúkrabíl á hjartadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss og er líðan hans eftir atvikum góð.

 

Stýrimenn varðskipsins eru lærðir sjúkraflutningamenn og hafa m.a. starfað sem sigmenn um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar. Þeir hafa einnig verið í starfsnámi á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Þekking þeirra hefur oft og tíðum komið að góðu gagni þegar menn veikjast eða slasast úti á sjó.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.