Kanadísk skúta sökk 25 sjómílur suðvestur af Malarrifi í dag

Mánudagur 30. ágúst 2004.

 

Björgunarstjórnstöðin í Halifax í Kanada hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar  kl. 17 í dag og tilkynnti að kanadísk skúta væri að sökkva um 25 sjómílur suðvestur af Malarrifi.  Björgunarstjórnstöðin í Halifax hafði þessar upplýsingar frá ættingjum áhafnar skútunnar sem höfðu náð símasambandi við þá með gervihnattasíma.  Um borð í skútunni voru tveir menn.  Símasamband við skútuna hafði rofnað og tilraunir til ná í hana aftur höfðu ekki borið árangur.

 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði út áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kl. 17:04 í beinu framhaldi af samtali við björgunarstjórnstöðina í Halifax. Einnig var haft samband við  Tilkynningarskyldu íslenskra skipa og óskað eftir að neyðarkall yrði sent út á rás 16 svo að skip á svæðinu fengju upplýsingar um málið.  Áhöfn TF-SYN, Fokker flugvélar Landhelgisgæslunnar, var einnig kölluð út ásamt Flugbjörgunarsveitinni til að leita að skútunni.  Þá var Varnarliðið beðið um að setja þyrlu í viðbragðsstöðu.

 

TF-LIF fór í loftið kl. 17:28.  Áhöfn hennar hafði samband við stjórnstöð kl. 18:05 og hafði leit þá engan árangur borið.  Aðstæður til leitar og björgunar voru ekki góðar.  Mjög hvasst var á svæðinu eða 20-25 metrar á sekúndu og skyggni um 2 kílómetrar og lágskýjað.  Ölduhæð var 4-5 metrar.  Vegna leitarskilyrða fór TF-SYN, flugvél Landhelgisgæslunnar, ekki í loftið.

 

Skömmu síðar, eða kl. 18:13 sá áhöfn TF-LIF mennina í sjónum.  Annar þeirra var í björgunargalla en hinn í vesti.  Búið var að hífa þá um borð kl. 18:20. 

 

Að sögn Einars Valssonar stýrimanns í TF-LIF var með ólíkindum að mennirnir skyldu finnast þetta fljótt því þeir voru í dökkum göllum og aðstæður til leitar þetta slæmar.  Ekki er unnt að greina frá líðan þeirra að svo stöddu. 

 

TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 19:06 þar sem sjúkrabifreiðir tóku á móti mönnunum og fluttu þá á sjúkrahús.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

 

Mynd JPÁ: Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, lenti kl. 19:06 á Reykjavíkurflugvelli.  Þar biðu sjúkrabifreiðar sem fluttu skipbrotsmenn á sjúkrahús.  Ekki er unnt að greina frá líðan þeirra að svo stöddu.