Þrír menn björguðust er tveir bátar sukku í dag - Þyrla Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu

Fimmtudagur 26. ágúst 2004.

Tilkynningarskyldan hafði samband  við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10:15 og tilkynnti að fiskibáturinn Björgvin ÍS-468 hefði sent neyðarskeyti er hann var staddur 15 sjómílur vestur af Dýrafirði.  Skömmu síðar var tilkynnt að báturinn væri að sökkva en tveir skipverjar hefðu bjargast um borð í gúmmíbát.  Þeim var síðan bjargað úr gúmmíbátnum um borð í bátinn Steinunni ÍS-817.  Björgvin ÍS-468 sökk kl. 10:50.

Um kl. 15:40 lét Tilkynningarskyldan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vita að leki væri kominn að fiskibátnum Fjarka ÍS-44 um 8 sjómílur suð-austur af Gjögri á Húnaflóa.  Þrjár trillur voru skammt frá og voru þær beðnar að halda til Fjarka.  Tilkynningarskyldan lét síðan vita kl. 16 að talið væri að báturinn væri sokkinn. Þá voru tveir bátar rétt ókomnir að Fjarka.  Þyrla var sett í viðbragðsstöðu að beiðni lögreglunnar á Hólmavík en ekki kom til þess að hún færi í loftið.  Einn skipverji var um borð í Fjarka og var honum bjargað í nærstaddan bát.

Eins og fram hefur komið í fréttum fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarskeyti um gervihnött um hádegisbilið í gær og fór þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, til leitar kl. 14:40.   Upplýsingar bárust kl. 17:05 um að skipaskoðunarmaður í Stykkishólmi hefði verði að prófa neyðarsendi inni í einangruðum skáp í fyrirtæki þar í bæ um svipað leyti og neyðarskeytin bárust.  Óskað var eftir að sá sendir yrði aftur settur í gang til að kanna hvort sendingar bærust frá honum og reyndist svo vera.  Þá var tekin ákvörðun um að hætta leit enda benti ekkert til þess að bátur væri í neyð á svæðinu.  TF-LIF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 17:40.   

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Mynd Jón Svavarsson: Þessi mynd var tekin úr Stykkishólmi er verið var að leita að neyðarsendi í gær.