Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði árangurslaust að ferðahópi eftir neyðarkall frá endurvarpa á Háskerðingi

Fimmtudagur 29. júlí 2004.

Í morgun barst neyðarkall frá ferðahópi að því er talið er frá endurvarpa á Háskerðingi í Kaldaklofsfjöllum vestan við Torfajökul.  Samband við hópinn rofnaði áður en tekist hafði að fá upplýsingar um staðsetningu hans. 

Lögreglan á Hvolsvelli óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar til að finna ferðahópinn sem sendi út neyðarkallið en talið er að um sé að ræða 20 franska ferðamenn.  Talið er hugsanlegt að fólkið sé með matareitrun.

Áhöfn TF-SIF var kölluð út kl. 13:48 og fór hún í loftið kl. 14:31.  Þá hafði lögreglan tilkynnt að engar frekari upplýsingar hefðu fengist um ferðahópinn.

Eftir að þyrluáhöfnin hafði leitað árangurslaust í skálum við Álftavatn, Hettufell og í Emstrum var haldið til Vestmannaeyja til að taka eldsneyti. Þaðan flaug þyrlan til leitar að nýju kl. 18:15.  Reynt var að ná sambandi við ferðahópinn með því að kalla út af og til á tíðninni sem neyðarkallið barst á.  Að sögn Benónýs Ásgrímssonar flugstjóra þurfti þyrlan að fljúga í 10 þúsund feta hæð til þess.  Fjölmargir aðilar á svæðinu frá Hellu austur í Hólaskjól og norður í Landmannalaugar svöruðu köllum frá þyrlunni en enginn kannaðist við að hafa sent út hjálparbeiðni.

Þyrlan fékk þar næst upplýsingar um að ferðahópurinn væri hugsanlega á leið frá Hólaskjóli í Jökulheima og var þá flogið niður fyrir skýin til að reyna leit að nýju. Seinna kom í ljós að sá ferðahópur var kominn á áfangastað og hafði ekki sent út neyðarkall.

TF-SIF lenti á Hvolsvelli kl. 19:45 og gaf áhöfn hennar lögreglu skýrslu um leit þyrlunnar.  Þar næst var haldið til Reykjavíkur þar sem þyrlan lenti kl. 20:40. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari leit með þyrlu.

Eins og kunnugt er hefur verið mikil þoka í Vestmannaeyjum og flug þangað legið niðri í dag svo að þjóðhátíðargestir verða að komast sinnar leiðar sjóleiðis.  Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru af TF-SIF og áhöfn hennar á flugvellinum í Vestmannaeyjum áður en þyrlan hélt að nýju af stað til leitar að týnda ferðahópnum. Að sögn Friðriks Höskuldssonar stýrimanns í áhöfn TF-SIF var skyggni á austanverðu leitarsvæðinu sambærilegt og sjá má á myndunum.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.