Viðbúnaður vegna skotelda mótmælendahóps

Þriðjudagur 20. júlí 2004.

Tilkynning barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:24 í gær um að neyðarblys hefði sést út af Gróttu á Seltjarnarnesi.  Stjórnstöðin óskaði þegar eftir því við strandarstöðvarnar að þær kölluðu út til skipa á svæðinu.  Slysavarnarfélagið Landsbjörg var einnig beðið um að senda björgunarbát þangað. 

Kl. 13:40 var upplýst að mótmælahópur hjá Perlunni hefði skotið upp neyðarblysum.  Eftir það var allur viðbúnaður afturkallaður enda hafði eftirgrennslan ekki borið árangur og líklegast að um sömu blysin hefði verið að ræða.

Samkvæmt reglugerð um skotelda nr. 925/2003 er almenn notkun og sala á skoteldum til almennings óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. Ljóst er að eingöngu er heimilt að nota neyðarblys þegar hætta er á ferðum.