Slasaður skipverji á Mánabergi ÓF-42 fluttur með þyrlu til Reykjavíkur

Mánudagur 19. júlí 2004.

Skipstjórinn á Mánabergi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 20:45 í gærkvöldi og óskaði eftir samtali við vakthafandi þyrlulækni vegna skipverja sem hafði slasast á hendi.  Skipið var þá að veiðum við 200 sjómílna lögsögumörkin á Reykjaneshrygg.

Læknir í áhöfn TF-LIF taldi nauðsynlegt að sækja manninn með þyrlu enda var ljóst að það tæki skipið sólarhring að sigla með hann til næstu hafnar.  Skipstjórinn var beðinn að sigla í átt til Reykjavíkur og láta vita þegar hann væri kominn í 150 sjómílna fjarlægð frá borginni.  Það gerði hann kl. 3:20 í morgun en þá átti hann eftir að sigla í klukkustund til að ná þeirri staðsetningu.

TF-LIF fór í loftið kl. 4:27 og var komin að skipinu kl. 5:31.  Sigmaður sótti hinn slasaða og gekk hífing vel. 

Þyrlan lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli kl. 6:49 en þar beið sjúkrabíll sem flutti slasaða skipverjann á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.