Áhyggjuefni hversu margir skipstjórar vanrækja hlustvörslu á rás 16

Sunnudagur 4. júlí 2004

Áhyggjuefni er hversu margir skipstjórar láta hjá líða að hlusta á rás 16, sem er neyðarbylgja fyrir skip og báta, og öllum sjófarendum er skylt að hlusta á.  Óhætt er að segja að það dragi verulega úr öryggi sjófarenda.

Samkvæmt 11. gr. reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa ber sérhverju skipi á sjó að halda stöðugri hlustvörslu eftir útsendingum á öryggistilkynningum fyrir sjófarendur á viðeigandi tíðnum þar sem slíkum upplýsingum er útvarpað til þess svæðis sem skipið siglir um.  Einnig er skylt að hafa hlustvörslu á kall- og neyðartíðninni fyrir metrabylgju, rás 16 (VHF).

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu þess varir rétt fyrir kl. þrjú í gærdag að verið var að grennslast fyrir um sómabátinn Eskey og nærstaddir bátar beðnir um að veita upplýsingar um ferðir hennar.  Varðstjórarnir höfðu þegar samband við Tilkynningarskylduna og þá kom í ljós að Eskey hafði dottið út úr tilkynningarskyldukerfinu um kl. 11:41 og tilraunir til að ná sambandi við bátinn höfðu ekki borið árangur.  Síðast var vitað um bátinn 19 sjómílur norðvestur af Rifi á Snæfellsnesi.

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð kl. 15 og fór TF-SIF í loftið hálftíma síðar.  Þá var björgunarbáturinn Björg frá Ólafsvík einnig á siglingu í átt að svæðinu.  Er þyrlan kom á svæðið þar sem síðast var vitað um Eskey sáust nokkrir smábátar að veiðum.  Tilkynningarskyldan hafði þá óskað eftir því við báta á svæðinu að þeir hæfu leit en ekkert fararsnið var á þessum bátum.  Í ljós kom að Eskey var einn þessara báta.

Eftir að þyrlan hafði sveimað yfir Eskey skamma stund hafði skipverji á honum samband gegnum talstöð og spurðist fyrir um hvort verið væri að leita að honum, sendirinn fyrir sjálfvirka tilkynningarskyldukerfið væri dottinn út vegna bilunar.  Í ljós kom að skipverjar á Eskey höfðu ekki opna rás 16 og sama máli virtist gegna um aðra báta í grenndinni.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.