Sprengjusérfræðingar fjarlægðu tundurdufl úr togaranum Brettingi

Laugardagur 3. júlí 2004.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fjarlægðu í gær tundurdufl úr togaranum Brettingi og eyddu sprengiefninu úr því, 227 kílóum af TNT.

Togarinn Brettingur fékk tundurdufl í vörpuna snemma í gærmorgun þar sem hann var að veiðum út af Austfjörðum á svokölluðu Tangaflaki.  Skipstjórinn hringdi strax í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem gaf honum samband við sprengjusérfræðing.  Samkvæmt lýsingu skipstjórans var um sprengihleðslu ásamt forsprengju að ræða og hafði hún fallið niður í fiskimóttökuna.  Skipstjóranum var leiðbeint um frágang og ráðlagt að koma að landi.

Brettingi var siglt til Seyðisfjarðar og voru sprengjusérfræðingarnir komnir þangað kl. 10 um morguninn.  Þeir fóru á báti út í togarann og fjarlægðu forsprengjuna frá aðalsprengjuhleðslunni.  Þá var hægt að sigla togaranum að bryggju.  Lögreglan stöðvaði alla umferð um höfnina áður en togarinn lagðist að og duflið var tekið í land.  Duflið var síðan flutt á afvikinn stað þar sem sprengiefnið var brennt.  Þetta var breskt tundurdufl úr seinni heimstyrjöldinni og innihélt það 227 kíló af TNT.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlafulltrúi.

Hleðsla úr tundurdufli um borð í Brettingi

Forsprengja og hluti sprengiefnis hennar.