Þjónustusamningur um vaktstöð siglinga undirritaður

Mánudagur 28. júní 2004.

Þjónustusamningur um rekstur vaktstöðvar siglinga var undirritaður í dag við hátíðlega athöfn í Skógarhlíð 14.  Samkvæmt honum taka Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg sameiginlega að sér að reka vaktstöð siglinga og er þjónustusamningurinn gerður við Siglingastofnun.  Dómsmálaráðherra og samgönguráðherra undirrituðu samninginn til staðfestingar.

Eins og fram kemur í samningnum er markmið hans m.a. að tryggja öryggi siglinga í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi skipa, farþega og áhafna og að bæta viðbrögð yfirvalda við atvikum, slysum eða hættum sem kunna að skapast á sjó, þ.m.t. leitar- og björgunarþjónustu.  Það er einnig markmið samningsins að samhæfa rekstur vaktstöðvarinnar annarri vaktþjónustu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með það fyrir augum að samlegðaráhrif leiði til hagræðingar sem m.a. má nýta til uppbyggingar tæknibúnaðar og endurnýjunar fjarskiptakerfa til að tryggja öryggi sjófarenda.

 

Landhelgisgæslan fer með faglega stjórn vaktstöðvarinnar.  Í því felst að stofnunin leggur til yfirmann vaktstöðvarinnar og starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar ganga þar vaktir sem faglegir stjórnendur. Landhelgisgæslan fer með yfirstjórn leitar- og björgunar á sjó og rekur stjórnstöð sína frá vaktstöðinni. Hún veitir stöðinni þannig hlutverk MRCC björgunaraðila á Íslandi. Landhelgisgæslan ákveður hvernig vaktstöðin er mönnuð frá degi til dags innan ramma sem stjórn vaktstöðvarinnar setur.  Landhelgisgæslan tilnefnir einn fulltrúa í stjórn vaktstöðvarinnar.

 

Neyðarlínan fer með fjármál vaktstöðvarinnar, húsnæðismál og annan rekstur. Þar á meðal leggur hún stöðinni til almenna starfsmenn og sér um að þörfum vaktstöðvarinnar fyrir fjarskiptaþjónustu og viðhald tæknivirkja sé fullnægt.  Í því sambandi tekur hún við, eftir nánara samkomulagi, starfsliði sjálfvirku tilkynningarskyldunnar  sem  verið hafa starfsmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar og einnig starfsmönnum strandstöðvaþjónustu Landssíma Íslands. Neyðarlínan tekur við fjárveitingum til rekstrar vaktstöðvarinnar  frá Siglingastofnun og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Neyðarlínan tilnefnir einn fulltrúa í stjórn vaktstöðvarinnar.

 

Slysavarnafélagið Landsbjörg flytur með samningi þessum til vaktstöðvar siglinga alla þjónustu er tengist sjálfvirku tilkynningarskyldunni (STK) sem og þann búnað sem það hefur komið sér upp við rekstur hennar, þ.m.t. tölvuhugbúnað.  Starfsmenn Tilkynningarskyldunnar flytjast til Neyðarlínunnar, sem tekur við skyldum gagnvart starfsmönnum sem þeim flutningi fylgir. Slysavarnarfélagið Landsbjörg tilnefnir einn fulltrúa í stjórn vaktstöðvarinnar.

 

Siglingastofnun hefur eftirlit með framkvæmd samningsins og tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í stjórn vaktstöðvarinnar. Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og Slysavarnarfélagið Landsbjörg skipa sameiginlega stjórn vaktstöðvarinnar.  Hlutverk stjórnarinnar er að fjalla um mál er varða verklagsreglur vaktstöðvarinnar, þjálfun starfsmanna, gæðastýringu í rekstri, þróun verkefna, stefnumörkun og ágreiningsmál er upp kunna að koma í rekstrinum. Stjórnin skal einnig setja verklagsreglur um þátt vaktstöðvarinnar í viðbrögðum samhæfingarstöðvar leitar og björgunar í Skógarhlíð. Að jafnaði skulu ákvarðanir stjórnar vera teknar samhljóða.

Dóms- og kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason sló á létta strengi í ræðu sem hann hélt af þessu tilefni en hún er birt í heild sinni á vef dómsmálaráðuneytisins.  Hann sagði m.a.:

Vænn alþingismaður sagði einu sinni um flokksbróður sinn, sem hafist hafði til ráðherratignar, við kannski misjafnan orðstír, að ráðherrann væri seinn til allra ákvarðana, nema þeirra röngu. Slíkt verklag geta starfsmenn vaktstöðvarinnar ekki leyft sér. Þar geta rétt viðbrögð, skjót en þó fumlaus, skilið milli lífs og dauða sjófarandans sem treystir á vaktstöðina.

Ég veit, að allir þeir sem að vaktstöðinni koma, vita vel af ábyrgð sinni og eru ráðnir í því að rísa undir henni.

Það er okkur fagnaðar- og þakkarefni hversu vel hefur tekist til með alla skipulagningu vaktstöðvarinnar og það samkomulag sem náðst hefur.

Ólíkir aðilar, hver um sig þrautreyndur á sínu sviði, Landhelgisgæslan, Neyðarlínan, og björgunarsveitirnar leggja hver um sig reynslu sína og færni til þessa starfs, og allir hafa kostað kapps um að útkoman verði þannig að sem bestur árangur geti náðst í hinu mikilvæga öryggisstarfi. Fyrir það færi ég þeim öllum þakkir mínar.

Þegar svo mætir aðilar, sem svo vel hafa starfað, hver á sínu sviði, efna nú til samstarfs, af jafnræði og fullum heilindum, höfum öll fulla ástæðu til að gera okkur hinar bestu vonir. Ég óska ykkur öllum heilla í ykkar mikilvægu störfum og bið því blessunar.

Samningurinn verður fljótlega birtur á heimasíðunni. 

Sjá mynd sem Heimir Már Pétursson upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar tók þegar samningurinn var undirritaður og veitti Landhelgisgæslunni góðfúslegt leyfi til birtingar.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.