Kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fjarlægja skotfæri úr flaki El Grillo

Fimmtudagur 24. júní 2004.

Síðastliðna tvo daga hafa kafarar og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ásamt áhöfn varðskips unnið að því að hreinsa skotfæri og önnur hættuleg sprengiefni úr flaki El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Verkefnið hefur gengið vel fram að þessu. Rúmlega 500 skotfæri (20 mm. kúlur með sprengjuhleðslu) hafa fundist og er verið að undirbúa að fjarlægja þau og koma þeim til eyðingar.

Að sögn Adrians King sprengjusérfræðings hjá Landhelgisgæslunni er markmiðið er að hreinsa aftari dekk skipsins þar sem fallbyssur og vélbyssur voru staðsettar. Skotfærin sem fundist hafa eru í mjög góðu ástandi. Þau voru á sínum tíma notuð í Oelikon loftvarnarbyssur en það voru fjórar slíkar á dekki El Grillo.

Loftvarnarbyssurnar (vélbyssur) voru með 3.5 km. drægi og voru notaðar mikið í seinni heimsstyrjöldinni. Þær voru settar á flest bandarísk og bresk herskip, einnig vopnuð kaupskip eins og El Grillo.

Eins og kunnugt er var El Grillo olíubirgðaskip bandamanna í seinni heimstyrjöldinni. Eftir árás þýskra orustuflugvéla á skipið í febrúar 1944 tóku Bretar ákvörðun um að sökkva því þrátt fyrir að enn væri mikið magn af olíu um borð.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Mynd: Kafari Landhelgisgæslunnar kemur upp úr sjónum eftir að hafa leitað að skotfærum í El Grillo.

Mynd: Skotfæri úr El Grillo.