Sjúkur skipverji sóttur með þyrlu í portúgalskan togara á Reykjaneshrygg

Miðvikudagur 16. júní 2004.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti í dag sjúkan skipverja af portúgalska togaranum Santa Isabel sem var við veiðar á Reykjaneshrygg.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst símbréf frá björgunarstjórnstöðinni í Lissabon í Portúgal kl. 16:15 þar sem óskað var eftir að sjúklingur um borð í togaranum Santa Isabel yrði sóttur og fluttur á sjúkrahús.  Skipið var þá statt á djúpkarfaslóð á Reykjaneshrygg 238 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.

TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 16:46 og hélt til Keflavíkur þar sem nauðsynlegt reyndist að fylla þyrluna af eldsneyti fyrir svo langt flug. Af öryggisástæðum fylgdi flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, þyrlunni.

TF-LIF fór frá Keflavíkurflugvelli kl. 17:07 og TF-SYN hélt frá Reykjavík kl. 17:20. Þyrlan var komin að skipinu kl. 19:02 og gekk vel að hífa sjúklinginn um borð.  Tíu mínútum síðar var haldið til baka til Reykjavíkur og lenti þyrlan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 21:06.  Þá var TF-SYN nýlent við flugskýli Landhelgisgæslunnar.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.