Nýjar myndir af El Grillo - Sjómælingabáturinn Baldur vitjar heimahaganna

Föstudagur 21. maí 2004.

 

Sjómælingabátur Landhelgisgæslunnar, Baldur, er nú kominn á Austfjarðasvæðið annað árið í röð til að ljúka við dýptarmælingar á hafsvæðinu frá Glettinganesi að Hlöðu vegna endurútgáfu á sjókorti nr. 73.  Það kort nær yfir firðina og hafsvæðið austur af þeim.  Áætlað er að ljúka mælingum síðsumars.  Þá tekur við úrvinnsla mælingagagna og síðan endurútgáfa kortsins á næsta ári.

 

Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar deildarstjóra sjómælingadeildar kom sjómælingabáturinn til hafnar á Seyðisfirði sl. þriðjudag þar sem settur var upp flóðmælir til að fylgjast með sjávarföllum á meðan á mælingum stendur.  Þessi viðkoma á Seyðisfirði er ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að við þetta tækifæri vitjaði Baldur heimahaganna í fyrsta skipti í 13 ár og 10 daga.  Baldur var smíðaður í Vélsmiðju Seyðisfjarðar 1990-1991, nýsmíði nr. 30 og því næstsíðasta skipið sem þar var smíðað.  Hann var sjósettur og gefið nafn 13. apríl 1991 og eftir nokkrar viðbætur við bryggju á Seyðisfirði var haldið til Reykjavíkur 8. maí 1991.

 

Sumir sem komu að smíði Baldurs á sínum tíma notuðu tækifærið og skoðuðu hann að nýju, þ.á.m. forsvarsmenn Vélsmiðjunnar. Útliti bátsins hefur ekki verið mikið breytt á þessum 13 árum en á honum hafa verið gerðar endurbætur í því skyni að gera hann nýtanlegri fyrir verkefni sjómælingadeildar.

 

Þegar haldið var aftur út frá Seyðisfirði var rennt yfir flakið af olíuskipinu EL Grillo sem liggur á botni fjarðarins á um 50 m dýpi rétt utan við bryggjurnar.  Fjölgeislamælir bátsins var látinn ganga og eru gögnin sem náðust af flakinu ótrúlega skýr og sýna vel greiningarhæfni og notagildi mælisins á þessu sviði, þ.e. að finna hluti á hafsbotni.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.

Mynd LHG: Baldur við bryggju á Seyðisfirði 18. maí 2004.  Hinum megin í firðinum má greina húsnæði Vélsmiðju Seyðisfjarðar, þaðan sem bátnum var rennt út fyrir rúmlega 13 árum.

Mæligögn frá Reson fjölgeisladýptarmæli sem hafa verið unnin í úrvinnsluforriti og gefa góða mynd af El Grillo á botni Seyðisfjarðar.  Mælirinn er í eigu hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins en Landhelgisgæslan er með sérstakan samning um notkun á tækjabúnaði frá þeirri stofnun.  Vel má greina allar útlínur skipsins en hafa ber í huga að það er endurvarp hljóðs sem framkallar þessar myndir.