Viðbúnaður vegna bátsins Manga sem óttast var um í morgun

Föstudagur 14. maí 2004.

Tilkynningarskyldan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 9 í morgun og tilkynnti að báturinn Mangi SH-616 hefði dottið út úr sjálfvirka tilkynningarskyldukerfinu klukkustund áður. Báturinn fór frá Stykkishólmi kl. 7:30 til veiða og hafði ekki svarað kalli í talstöð eða farsíma. Ekki var vitað um aðra báta á svæðinu.

Tilkynningarskyldan kallaði út björgunarsveitir og ákvað stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að
senda þyrlu og varðskip á staðinn. Reiknað var með að þyrlan yrði þar kl. 10:10 og varðskipið kl. 11.

Rétt áður en þyrlan kom á staðinn barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynning um að báturinn hefði fundist við Stangarsker og allt væri í lagi.

Áhöfn TF-SIF og varðskipsins Ægis voru þegar látnar vita og lenti þyrlan í Reykjavík kl.10:51.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.