Björgunaræfingin Bright Eye

Miðvikudagur 5. maí 2004.

Í gærdag tók Landhelgisgæslan þátt í sameiginlegri æfingu björgunarstjórnstöðva og björgunarflokka við Norður-Atlantshaf en æfingin er haldin árlega og gengur undir nafninu Bright Eye.  Að þessu sinni stilltu Íslendingar og Færeyingar saman strengi sína. 

Æfingin gekk út á að finna tvo gúmmíbjörgunarbáta sem varðskip Landhelgisgæslunnar hafði sett út nálægt miðlínunni milli Íslands og Færeyja í fyrradag.  Það var svo hlutverk áhafnar Fokker flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, og færeyska varðskipsins Brimils að finna bátana. Um borð í TF-SYN var fimm manna áhöfn Landhelgisgæslunnar og þrír menn frá flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík sem höfðu það hlutverk að vera útverðir, þ.e. að svipast um eftir björgunarbátunum sem leitað var að. Markmiðið var einnig að þjálfa samskipti milli björgunarstjórnstöðvanna í Þórshöfn í Færeyjum og björgunarstjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.  Eftir talsverða leit tókst áhöfn TF-SYN að finna björgunarbátana.

Seinna í þessum mánuði verða tveir seinni hlutar æfingarinnar haldnir og þá bætast við björgunaraðilar frá Grænlandi, þ.e. dönsku herstöðinni í Grönnedal og flugstjórnarmiðstöðinni í Syðri Straumsfirði og síðast en ekki síst björgunarstjórnstöðinni í Bodoe í Noregi. 

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.