Havsel kom til Akureyrar í morgun - Þakkarskeyti barst frá björgunarstjórnstöðinni í Bodoe í Noregi

Þriðjudagur 4. maí 2004.

Norska selveiðiskipið Havsel kom til Akureyrar kl. 10 í morgun. Í fyrradag var mikill viðbúnaður vegna skipsins en þá hafði komið gat á það eftir að það rakst á hafís.  Þar sem mikill leki kom að skipinu var talið að áhöfnin væri í hættu.  Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, og tvær þyrlur varnarliðsins voru í viðbragðsstöðu á Ísafirði, reiðubúnar að bjarga áhöfninni, en til þess kom þó ekki þar sem skipverjum tókst að gera við skipið til bráðabirgða.  Til stendur að klára viðgerðina við bryggjuna á Akureyri.

Björgunarstjórnstöðin í Bodoe í Noregi sendi Landhelgisgæslunni skeyti þar sem öllum björgunaraðilum sem unnu við að aðstoða skipið voru færðar þakkir, þó sérstaklega björgunarstjórnstöð Landhelgisgæslunnar (MRCC Reykjavik) , herskipinu Vædderen, áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar og áhöfn bandarísku þyrlanna. 

Anne Holm Gundersen framkvæmdastjóri björgunarstjórnstöðvarinnar í Bodoe, sem undirritar skeytið, segir einnig að þetta sanni gildi sameiginlegra æfinga og vinnu þessara aðila á æfingum sem haldnar hafa verið árlega sl. áratugi á Norður-Atlantshafi undir heitinu Bright Eye.  Slíkar æfingar eru til að þjálfa samhæfingu björgunarstjórnstöðva og aðgerða þeirra á þessu björgunarsvæði.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.