TF-SIF flutti tildráttartaug yfir í norska björgunarskipið að nýju

Þriðjudagur 16. mars 2004.

 

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, flaug austur á strandstað Baldvins Þorsteinssonar kl. 7 í morgun og lenti þar um áttaleytið. 

 

Fyrsta verkefni þyrlunnar var að flytja fjóra skipverja um borð í Baldvin Þorsteinsson. Að því loknu var hafist handa við að ferja tildráttartaug frá landi yfir í dráttarskipið Normand Mariner.  Það gekk vel eins og í fyrra skiptið og tók alls 30 mínútur. Varðskip var á staðnum og voru léttbátar þess til reiðu ef eitthvað brygði út af. Þeir voru einnig notaðir til dýptarmælinga fyrir norska dráttarskipið.

 

Þar næst voru þrír skipverjar til viðbótar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson.  Að síðustu var flogið yfir svæðið og myndir teknar af skipinu til að auðveldara væri að ákveða í hvaða átt væri heppilegast að draga skipið.

 

Áhöfn þyrlunnar beið nokkra stund til að sjá hvort taugin sem búið var að flytja héldi og að því loknu hélt þyrlan af stað til Reykjavíkur.  TF-SIF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 13:50.

 

Sjá myndir sem Jón Tómas Vilhjálmsson flugvirki/spilmaður í áhöfn TF-SIF  tók er flogið var yfir strandstað í morgun.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.