Reynt verður að draga Baldvin Þorsteinsson af strandstað á flóðinu í kvöld

Sunnudagur 14. mars 2004.

Áhöfn TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur haldið til í Vík í Mýrdal frá því sl. föstudag og hefur sinnt margvíslegum verkefnum á strandstað Baldvins Þorsteinssonar EA-10.

Í morgun fór TF-SIF í loftið frá Vík kl. 6:45 og var haldið beint á strandstað við Meðallandsfjörur.  Til að byrja með var einn stýrimaður fluttur frá varðskipi yfir í norska dráttarbátinn Normand Mariner og maður frá Hampiðjunni, sem verið hafði við vinnu um borð í dráttarbátnum, fluttur í land.  Stýrimaðurinn var fluttur um borð í dráttarskipið til að sjá um samskipti við þyrluna TF-SIF.

Þar næst voru 5 skipverjar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson. Að því loknu dró TF-SIF tildráttartaug frá dráttarbátnum í land.  Það verkefni tók um 40 mínútur og var lokið kl. 9:30.  Þetta er nokkuð flókin aðgerð sem ekki hefur verið framkvæmd áður hér við land og gekk afskaplega vel að mati áhafnar TF-SIF.

Næst voru 5 skipverjar til viðbótar fluttir yfir í Baldvin Þorsteinsson en skipverjarnir hafa unnið við að festa aðaldráttartaugina í skipið og undirbúa það undir björgun. Nú er björgunarstóll tengdur við skipið og hluti af skipverjum verður fluttur í land með honum áður en reynt verður að draga skipið á flot.

Eftir að skipverjarnir höfðu verið fluttir um borð í Baldvin Þorsteinsson flutti TF-SIF lensidælur um borð í skipið en þær geta komið að gagni ef losa þarf loðnu úr lestum skipsins eða ef leki kemur að því.

Að lokum var farin ein ferð út í dráttarbátinn með búnað og stýrimaður frá varðskipinu fluttur aftur til baka.  TF-SIF lenti í Vík kl. 13:50 og var komin til Reykjavíkur kl. 15:17.  

Þyrla Varnarliðsins hefur einnig tekið þátt í undirbúningi björgunarinnar, bæði í gær og fyrradag en þá voru þyrlurnar að flytja búnað út í dráttarskipið bæði frá landi og frá varðskipunum.

Tvö varðskip Landhelgisgæslunnar eru á strandstað og munu þau aðstoða við björgunarstörf. Áhafnir þeirra hafa tekið þátt í undirbúningi fyrir björgun m.a. með því að leggja til dráttarbúnað sem notaður var til að koma aðaldráttartaug norska skipsins í land.  Einnig hafa áhafnir varðskipanna séð um dýptarmælingar fyrir dráttarskipið.  Léttbátur varðskipsins hefur m.a. verið notaður í þeim tilgangi. 

Væntanlega verður byrjað að draga Baldvin Þorsteinsson af strandstað á flóðinu sem verður um ellefuleytið í kvöld.

Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Erlendsson flugvirki í áhöfn TF-SIF tók í dag.  Á þeim má sjá Baldvin Þorsteinsson EA-10 á strandstað, norska dráttarbátinn Normand Mariner og á síðustu myndinni sjást varðskipin og dráttarbáturinn úr þyrlunni þegar þyrlan er að flytja tildráttartaugina í land.    

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlafulltrúi.