Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, og þyrla Varnarliðsins notaðar á strandstað á Meðallandsfjörum

Föstudagur 12. mars 2004.

Í morgun kom í ljós að bilun er í kringum afísingarbúnað í stélskrúfu TF-LIF og því er líklega ekki hægt að nota hana frekar í tengslum við björgun fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar EA-10.  Það fer þó eftir því hversu langan tíma björgunarstörfin taka.

Búið er að senda gírkassa vélarinnar af stað til Noregs þar sem fyrirtækið Astec Helicopter Service sér um lagfæringar.  Ekki er legið með varahluti af þessu tagi hér á landi enda eru þeir mjög dýrir og nauðsynlegt að sérfræðingar frá viðurkenndri viðhaldsstöð geri við þá, þ.e. viðhaldsstöð sem framleiðandi gírkassans hefur viðurkennt.  Sennilega tekur viðgerð a.m.k. fjóra daga.

Gírkassin sem slíkur kostar 37-38 milljónir en ekki er ljóst hversu kostnaðarsöm viðgerð á honum verður. 

Landhelgisgæslan er með samning við Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um gagnkvæma aðstoð og upplýsingagjöf og samþykkti Varnarliðið strax að senda þyrlu í verkefnið á strandstað á Meðallandsfjörum í stað TF-LIF.  Tvær þyrlur verða því á svæðinu, TF-SIF og þyrla Varnarliðsins.  Verkefni þeirra verða m.a. að flytja búnað og línur milli skipa.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.

Mynd: flugvirkjar við vinnu í flugskýli Landhelgisgæslunnar. Myndin er tekin í fyrra er 500 tíma skoðun TF-SIF stóð yfir.