Varðskipið Týr sigldi með Mánafoss í drætti frá Vestmannaeyjum til Akureyrar með viðkomu í Reykjavík

Fimmtudagur 26. febrúar 2004.

 

Mánafossi, skipi Eimskips, hlekktist á er skipið var á leið út úr höfninni í Vestmannaeyjum 18. febrúar sl.  Haft var samband við Landhelgisgæsluna og óskað eftir að varðskip drægi Mánafoss til hafnar í Reykjavík þar sem kanna átti skemmdirnar.

 

Varðskipið Týr var þá statt út af Reykjanesi og var haldið til Vestmannaeyja þegar formleg beiðni barst.  Týr kom til hafnar í Vestmannaeyjum að kvöldi fimmtudagsins 19. febrúar.  Veður var þá þokkalegt en ákveðið var að bíða til morguns með að draga skipið þar sem bógskrúfa Mánafoss var óvirk vegna bilunar í ljósavél og viðgerðarmenn voru að störfum.

 

Morguninn eftir var ákveðið að losa 1000 tonn af farmi úr skipinu og koma honum í annað skip Eimskips.  Því var lokið um fjögurleytið föstudaginn 20. febrúar.  Að því loknu hélt varðskipið Týr með Mánafoss í drætti áleiðis til Reykjavíkur.  Veðurútlit var sæmilegt en skipin hrepptu slæmt veður á leiðinni.  Ferðin tók alls 36 stundir og komu skipin til hafnar í Reykjavík að morgni sunnudagsins 22. febrúar.

 

Í Reykjavík voru skemmdir á Mánafoss kannaðar og niðurstaðan varð sú að skipið þyrfti að fara í slipp á Akureyri.  Þá var óskað eftir því að varðskipið Týr drægi Mánafoss þangað.  Sú ferð hófst seinnipart mánudagsins 23. febrúar.  Veður var hagstætt miðað við árstíma og tók ferðin alls 47 klst. Skipin komu til Akureyrar kl. 16:30 í gær.

 

Sjá meðfylgjandi myndir sem skipverjar á varðskipinu Tý tóku er skipin voru á leið inn Eyjafjörð.  Eins og sjá má er talsverður stærðarmunur á skipunum en varðskipið Týr er 70 metra langt og 10 metra breitt en Mánafoss er 100 metra langur og 19 metra breiður.

 

Dagmar Sigurðardóttir

fjölmiðlaftr.