Slasaður sjómaður sóttur út á haf - Vel heppnuð samvinna áhafna varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fimmtudagur 12. febrúar 2004.

Reykjavíkurradíó hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 17:54 í gær og tilkynnti að maður um borð í loðnubátnum Svani RE-45 hefði fengið þungt höfuðhögg og að óskað væri eftir þyrlu til að sækja hann. Báturinn var þá að veiðum á loðnumiðunum fyrir austan land. 

Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út.  Einnig var haft samband við varðskipið Ægi sem var statt á loðnumiðunum skammt frá Svani RE.  Varðskipið sigldi þá þegar í átt að Svani RE og var komið að loðnubátnum kl.18:10.  Þá fóru stýrimenn um borð í Svan til að kanna ástand hins slasaða.  Þeir voru í beinu sambandi við lækni í áhöfn þyrlunnar og gerðu fyrstu ráðstafanir í samráði við hann.

Um kl. 18:26 var ákveðið í samráði við þyrluáhöfn að flytja hinn slasaða um borð í varðskipið.  Varðskipsmenn fluttu hann á milli með léttbát og var hann kominn um borð í Ægi kl. 19:07.  Vel gekk að flytja hinn slasaða á milli skipa. Í framhaldi af þessu hélt varðskipið á 18 sjómílna hraða í VSV-átt til móts við þyrluna.

TF-LIF var komin að varðskipinu kl. 21:08 og gekk vel að hífa hinn slasaða um borð í þyrluna. Að sögn Benónýs Ásgrímssonar yfirflugstjóra Landhelgisgæslunnar var flugveður slæmt. Ísing var í lofti, talsverð ókyrrð og allmikill sjór. Það skipti sköpum að hægt var að hífa manninn um borð við þessar aðstæður að búið var að flytja hann um borð í varðskipið áður en þyrlan kom á staðinn.

Næst var ferðinni heitið til Hafnar í Hornafirði til að taka eldsneyti og var lent þar kl.22:07.  Þaðan var haldið kl. 22:30 og lent við slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi kl. 00:10.

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlaftr.