Björgunarsveitarmenn í heimsókn hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar

Mánudagur 2. febrúar 2004.

Nýlega heimsótti áhöfn björgunarbátsins Ásgríms S. Björnssonar og sjóflokkur björgunarsveitar Ársæls flugdeild Landhelgisgæslunnar og kynnti sér starfsemi hennar og tækjakost.  Það voru þeir Auðunn F. Kristinsson stýrimaður og sigmaður og Steinn Kjartansson aðstoðarmaður flugvirkja sem tóku á móti hópnum og fræddu mannskapinn um hlutverk deildarinnar og sögðu frá áhugaverðum björgunarleiðöngrum og atvikum liðinna ára. 

Sami hópur hefur heimsótt stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, höfuðstöðvar og varðskip á síðastliðnu ári í þeim tilgangi að fræðast um starfsemi Landhelgisgæslunnar og vera þannig betur undir það búinn að starfa henni við hlið í aðgerðum.

 

Góð samvinna hefur verið milli Landhelgisgæslunnar og áhafnar björgunarbátsins og sjóflokksins.  Ekki spillir fyrir að sumir starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru fyrrverandi og jafnvel núverandi félagar í björgunarsveitinni.  Eins eru nokkrir félagar sveitarinnar fyrrverandi starfsmenn Landhelgisgæslunnar og þekkja því vel til starfshátta hennar.

 

Daginn sem heimsóknin átti sér stað hafði áhöfn björgunarbátsins aðstoðað áhöfn TF-LÍF við þjálfun í notkun björgunarnets sem ætlað er til að ná mönnum úr sjó.  Björgunarbáturinn var hafður tiltækur ásamt áhöfn ef eitthvað færi úrskeiðis en það er nauðsynleg öryggisráðstöfun við slíkar aðstæður.

 

Ásgrímur Ásgrímsson     Dagmar Sigurðardóttir

deildarstjóri                    fjölmiðlafulltrúi

 

Mynd: Landhelgisgæslan/Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri: Hópurinn á vegum björgunarsveitarinnar Ársæls ásamt þeim Auðunni F. Kristinssyni stýrimanni/sigmanni og Steini Kjartanssyni aðstoðarmanni flugvirkja.  Myndin er tekin við þyrluna TF-LIF í flugskýli Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll.

 

Mynd: Landhelgisgæslan/Ásgrímur Ásgrímsson deildarstjóri: Auðunn F. Kristinsson stýrimaður/sigmaður og fyrrverandi félagi í björgunarsveitinni sýnir félögum úr sjóflokk björgunarsveitarinnar Ársæls björgunarnetið sem flugdeild Landhelgisgæslunnar ráðgerir að taka í notkun.