Afli erlendra skipa í íslensku fiskveiðilögsögunni árið 2003

Miðvikudagur 31. desember 2003.

 

Landhelgisgæslan hefur eftirlit með veiðum allra erlendra fiskiskipa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Að jafnaði setja íslensk stjórnvöld það skilyrði að erlendu skipin séu búin fjareftirlitsbúnaði sem tilkynnir sjálfvirkt staðsetningu skipanna á klukkustundar fresti til stjórnstöðva heimalanda þeirra.  Upplýsingar um staðsetningu skipanna eru síðan sendar sjálfvirkt til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar um leið og þau sigla inn í íslensku efnahagslögsöguna.  Gagnkvæmir samningar um fjareftirlit eru nú í gildi milli Íslands, Færeyja, Grænlands, Noregs og Rússlands.  Auk þess tilkynna skipin daglega um veiddan afla, komur og brottfarir úr fiskveiðilögsögunni.

 

Um 149 erlend fiskiskip tilkynntu stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um afla árið 2003 og var aflinn samtals 169.757 tonn en á sama tíma í fyrra höfðu erlendu skipin veitt 206.330 tonn.  Munurinn liggur helst í því að minna veiddist af loðnu í ár en í fyrra.  Bretar veiddu á árinu 1.279 tonn, Þjóðverjar 1.307 tonn, Færeyingar 135.468 tonn, Norðmenn 1.472 tonn og Grænlendingar 30.230 tonn.  Tekið skal fram að þessar tölur eru samkvæmt tilkynningum skipanna til Landhelgisgæslunnar en löndunartölur til Fiskistofu veita nákvæmari upplýsingar.

 

Tíu skip frá Evrópusambandinu höfðu leyfi til botnfiskveiða.  Afli bresku skipanna samanstóð að mestu leyti af karfa eða 1.073 tonn, og þorski, um 100 tonn.  Þjóðverjar veiddu mest af karfa, 1.147 tonn og þorski, um 60 tonn. 

 

Alls höfðu 95 norsk skip leyfi til veiða í efnahagslögsögunni.  Þar af höfðu þrjú leyfi til línuveiða og 92 leyfi til loðnuveiða.  Afli Norðmanna var að mestu loðna eða 865 tonn en einnig veiddu þeir talsvert af keilu eða 315 tonn.  Mikill munur er á loðnuafla Norðmanna samanborið við árið 2002 en þá veiddu þeir alls 56.130 tonn af loðnu.

 

Fimmtíu færeysk skip höfðu leyfi til línu- og handfæraveiða.  Þau fengu alls 4000 tonn af mismunandi tegundum botnfisks.  Einnig höfðu 10 færeysk skip leyfi til veiða á kolmunna og loðnu. Þau veiddu 95 þúsund tonn af kolmunna og 36 þúsund og fimm hundruð tonn af loðnu.

 

Grænlendingar höfðu eitt loðnuveiðileyfi og eitt botnfiskveiðileyfi. Þeir veiddu 27 þúsund tonn af loðnu og 3000 tonn af botnfiski.

 

Einnig höfðu fimm japönsk túnfiskveiðiskip leyfi til veiða hér við land en þau tilkynna sinn afla til Hafrannsóknarstofnunar.

 

Yfirlit yfir afla erlendra skipa sem hér er vitnað til nær til kl. 13 þriðjudaginn 30 desember en þá var aðeins eitt erlent skip að veiðum í íslensku efnahagslögsögunni, breska skipið Norma Mary, sem talið er að landi afla sínum í Færeyjum.

 

Dagmar Sigurðardóttir
fjölmiðlafulltrúi