Landhelgisgæslan auglýsir stöðu þyrluflugmanns lausa til umsóknar

Föstudagur 28. nóvember 2003.

Um þessar mundir starfa níu flugmenn hjá Landhelgisgæslunni og um næstu áramót losnar ein staðan þar sem einn flugmaðurinn hættir störfum fyrir aldurs sakir.

Í auglýsingu kemur fram að óskað er eftir þyrluflugmanni.  Um er að ræða fullt starf í vaktavinnu.  Staðan tilheyrir flugdeild stofnunarinnar og heyrir stjórnunarlega beint undir yfirflugstjóra.  Viðkomandi þarf helst að geta hafið störf um næstu áramót.

Nauðsynlegt er að umsækjandi hafi gilt JAA atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu með blindflugsáritun ásamt því að hafa lokið bóklegu ATPL námi.  Æskilegt er að viðkomandi sé einnig handhafi atvinnuflugmannsskírteinis á flugvél.  Jafnframt skulu umsækjendur hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu námi.  Umsækjendur skulu hafa gott vald á íslensku og ensku.

Launakjör ákvarðast af kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra atvinnuflugmanna.  Umsóknum ber að skila til starfsmannastjóra Landhelgisgæslu Íslands, Seljavegi 32, 101 Reykjavík á umsóknareyðublöðum sem þar fást.  Einnig má nálgast umsóknareyðublöðin á vefslóð Landhelgisgæslunnar.  Umsóknum skal skilað fyrir 10. desember 2003.  Nánari upplýsingar um starfið veitir Björn Brekkan flugmaður í síma 545-2000.

Nauðsynlegt er að endurnýja eldri umsóknir.  Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.