Björgun Þorsteins EA

Föstudagur 31. október 2003.

Reykjavíkurradíó hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 14:41 og tilkynnti að mikill leki væri kominn að vélarrúmi fjölveiðiskipsins Þorsteins EA en þá var skipið statt 25 sjómílur norðaustur af Glettinganesi.  Tuttugu og fjórir menn voru í áhöfn skipsins.  Skipverjar réðu ekki við lekann og óskuðu eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.  Veður var norðan eða norðvestan 12-13 m. á sekúndu og talsverður sjór. 

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sáu strax í fjareftirlitskerfi stofnunarinnar að tvö skip voru stödd í námunda við Þorstein EA.  Starfsmenn Reykjavíkurradíós voru beðnir um að kalla þau strax upp og óska eftir að þau héldu í átt til Þorsteins EA. Einnig var óskað eftir að björgunarsveitir á Austfjörðum yrðu kallaðar út.

TF-SIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þá á flugi fyrir vestan land og var hún þegar kölluð inn til Reykjavíkur.  Þar fór þyrluáhöfnin um borð í TF-LIF með sex dælur og fór hún á loft frá Reykjavíkurflugvelli kl. 15:41. 

Haft var samband við skipið stuttu síðar og þá var verið að koma taug úr fjölveiðiskipinu Vilhelmi Þorsteinssyni EA yfir í Þorstein EA.  Kl. 16:54 var Þorsteinn EA kominn í tog en þá var lekinn orðinn það mikill að skipið var farið að ,,síga á verri hliðina" að sögn skipstjóra. 

Vilhelm Þorsteinsson var kominn með Þorstein EA í tog kl. 16:54 og sigldi með skipið í átt til Neskaupstaðar á 6,5-7,5 sjómílna hraða og minnkaði lekinn fljótlega eftir að skipin voru komin á ferð.

TF-LIF var komin að skipunum um sexleytið og fóru tveir sigmenn/stýrimenn úr þyrlunni með sex dælur um borð í Þorstein EA.  Fljótlega fóru dælurnar að hafa undan lekanum og sjór að lækka í vélarrúmi.  Um kl. 19:30 hélt TF-LIF til Egilsstaða til að taka eldsneyti.  Þá hafði sjór í vélarrúmi lækkað um 70 cm. á einni klukkustund.  Annar stýrimannanna úr þyrluáhöfn varð eftir um borð í Þorsteini EA til að sjá um dælurnar.

Skipin eru væntanleg til Neskaupsstaðar kl. 22 í kvöld.

Þorsteinn EA-810 er samkvæmt sjómannaalmanaki Skerplu stálskip, smíðað í Noregi árið 1988 og gert út af Samherja á Akureyri.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi