Sjávarfallaalmanak og sjávarfallatöflur 2004 komnar út

Föstudagur 31. október 2003.

 

Út eru komnar Sjávarfallatöflur 2004 ásamt Sjávarfallaalmanaki 2004. Sjómælingar Íslands, sem eru deild innan Landhelgisgæslunnar, hafa gefið út töflur yfir sjávarföll í yfir 50 ár. Töflur yfir sjávarföll í Reykjavík og flóðbið annarra staða við Ísland gáfu Sjómælingar Íslands fyrst út árið 1954. Útreikningur taflanna byggðist á athugun, sem gerð var af starfsmönnum Sjómælinganna á sjávarföllum í Reykjavíkurhöfn allt árið 1951.Áður höfðu birst í almanaki Þjóðvinafélagsins og í Sjómannaalmanakinu töflur yfir sjávarföll sem byggðust á athugunum er náðu yfir skemmra tímabil og gátu því ekki orðið eins nákvæmar.

 

Fylgst hefur verið með sjávarföllum í Reykjavík nær óslitið síðan 1951 og grundvallast útreikningur töflunnar fyrir Reykjavík nú á greiningu sjávarfalla frá árunum 1956 til 1989.  Auk töflunnar fyrir Reykjavík eru töflur fyrir Ísafjörð, Siglufjörð og Djúpavog. Athuganir voru gerðar á árunum 1972-1973 fyrir Ísafjörð, 1976 fyrir Siglufjörð og 1977-1980 fyrir Djúpavog.

 

Sjávarfallaalmanakið sýnir útreiknaða hækkun og lækkun sjávar í Reykjavík fyrir hvern dag ársins. Breyting sjávarfallabylgjunnar frá degi til dags og hlutfallsleg stærð hennar við stórstraum og smástraum kemur greinilega fram á línuritinu.Hverjum sólarhring er deilt niður í tveggja klukkustundar bil og er sjávarhæðin sýnd í metrum miðað við núll-flöt sjókorta. Með hjálp línuritsins má því áætla sjávarstöðuna áhverjum tíma. Sé þörf á meiri nákvæmni er vísað til töflu yfir sjávarföll við Ísland, en í þeirri töflu er tími og hæð flóðs og fjöru gefinn upp nákvæmlega.

 

Stórstreymt er einum til tveim dögum eftir að tungl er nýtt eða fullt en smástreymt einum til tveim dögum eftir fyrsta og síðasta kvartil. Í almanakinu er sýnt hvenær kvartilaskipti tungls verða.

 

Upplýsingar um sjókort og aðrar útgáfur ásamt upplýsingum. um hvar hægt er að nálgast þessar vörur hjá umboðsmönnum er að finna í kortaskrá Sjómælinga Íslands, en finna má tengil inn á hana á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.  Á meðfylgjandi myndum má sjá tíma og hæð flóðs og fjöru í janúar - mars í Reykjavík 2004 og sjávarföll í Reykjavík í janúar 2004.