Viðbúnaður vegna skelveiðibátsins Fossár frá Þórshöfn

Miðvikudagur 8. október 2003.

Um kl. 19:35 í gærkvöldi fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar frá Tilkynningarskyldunni um að skelveiðibáturinn Fossá frá Þórshöfn hefði fengið í skrúfuna og lægi við akkeri í Eiðisvík. Fjórir menn voru í áhöfn bátsins. Á þeirri stundu taldi skipstjóri Fossár að ekki væri hætta á ferðum.  Stuttu síðar lét Tilkynningarskyldan vita að fjölveiðiskipið Björg Jónsdóttir væri á leið til Fossár og var gert ráð fyrir að það tæki tvo og hálfan tíma að komast á staðinn.  Varðskip var þá statt í 80-90 sjómílna fjarlægð frá Eiðisvík og hélt þegar í áttina þangað.

Tilkynningarskyldan lét vita að Fossá væri búin að slíta annað akkerið kl. 20:19.  Á svæðinu voru 10 – 15 metrar á sekúndu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsti varðskip og var það sett á fulla ferð.  Lögregla og björgunarsveitir voru þá einnig á leið til Eiðisvíkur. 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði samband við skipstjóra Fossár um kl. 20:32 og taldi hann þá ekki ástæðu til að senda út þyrlu.  Skipið var þá eina sjómílu frá landi og sagðist skipstjórinn vera tilbúinn að setja út plóginn ef hitt akkerið slitnaði. 

Lögreglan á Húsavík og á Þórshöfn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar stuttu síðar og var upplýst um þá ákvörðun Landhelgisgæslunnar að senda ekki þyrlu og að sú ákvörðun hefði verið tekin í samráði við skipstjóra Fossár. 

Um kl. 23:15 upplýsti skipstjóri Fossár að báturinn væri komið í tog hjá fjölveiðiskipinu Björgu Jónsdóttur og þá var varðskip afturkallað.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi