Sjúkraflug með slasaðan bifhjólamann

Laugardagur 4. október 2003.

Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 15:51 og tilkynnti að maður hefði lent í bifhjólaslysi milli Búrfells og Heklu.  Gefin var upp nákvæm staðsetning og látið vita að læknir væri á leiðinni.  TF-SIF hafði verið send í verkefni til Vestmannaeyja og var henni þegar snúið við. 

Læknir var kominn á slysstað kl. 16:42 og óskaði eftir þyrlu þar sem ekki tókst að koma sjúkrabifreið á slysstað.  Maðurinn var sagður illa slasaður á fæti. 

TF-SIF hafði viðkomu í Reykjavík til að sækja lækni úr áhöfn þyrlunnar og var komin til baka með hinn slasaða kl. 18:28.  Hann var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi