Stefnt að því að eyða djúpsprengjum við Álftanes í dag

Föstudagur 3. október 2003.

 

Sprengjuleitarkafarar Landhelgisgæslunnar hafa fundið tvær 300 kílóa djúpsjávarsprengjur út af Hliðsnesi á Álftanesi.  Sprengjurnar eiga sennilega rætur að rekja til sprengjuflugvélar af gerðinni Lockheed Hudson sem hrapaði í sjóinn á þessu svæði á stríðsárunum með þeim afleiðingum að allir um borð fórust.  Sprengjurnar verða gerðar óvirkar í dag ef veður leyfir og má búast við að hávær hvellur heyrist í nágrenninu þegar það gerist.  Almenningi er engin hætta búin.

 

Kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fundu torkennilegan hlut á svæðinu þegar þeir voru þar við æfingar 30. september sl.  Þeir höfðu samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sem gat borið kennsl á hlutinn en um var að ræða kveikibúnað úr bandarískri neðansjávarsprengju sem hefur þann eiginleika að springa þegar þrýstingur myndast neðansjávar.  Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lagði einnig fram tölvumyndir af svæðinu þar sem kveikibúnaðurinn fannst.  Sprengjusérfræðingarnir töldu strax mögulegt þegar þeir skoðuðu myndirnar að um stóra sprengju og hluta úr kveikibúnaði væri að ræða.

 

Daginn eftir, þann 1. október, fóru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar vandlega yfir svæðið og fundu tvær sprengjur.  Um er að ræða bandarískar MK 49 djúpsjávarsprengjur úr seinni heimstyrjöldinni sem notaðar voru til að ráðast á kafbáta óvinaþjóða.  Þær eru hannaðar þannig að þær geta jafnt sprungið neðansjávar og á þurru landi.  Báðar sprengjurnar hafa þrískiptan kveikibúnað og því er afskaplega flókið fyrir sprengjusérfræðingana að gera þær óvirkar.  Venjulega ættu sprengjur sem þessar að springa þegar þær hafa náð niður á ákveðið dýpi en þær eru á grunnsævi og hafa þess vegna ekki orðið virkar.  Öryggisbúnaður, sem venjulega er á slíkum sprengjum, hefur verið fjarlægður og því eru þær tilbúnar að springa þegar réttar aðstæður eru fyrir hendi, þ.e. við nægan þrýsting neðansjávar.  Í hvorri sprengjunni eru 215 kg. af efninu torpex en það er mun kraftmeira en sprengiefnið TNT og jafnast allt þetta sprengiefni á við 1 tonn af dýnamíti. 

 

Vandinn sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar standa frammi fyrir er nálægð við íbúabyggð, staðsetning sprengjanna á grunnsævi og hversu viðkvæmur kveikibúnaðurinn er.  Ef sprengjurnar væru ekki svo nálægt íbúabyggð væri hægt að eyða þeim þar sem þær eru nú staðsettar.  Hugmyndin er hins vegar að færa þær lengra í burtu frá byggð áður en þær verða sprengdar.  Það verður gert með því að festa þær í pramma eða flottunnur og draga þær fjær Álftanesi með léttbát varðskips Landhelgisgæslunnar.

 

Sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar munu í sameiningu vinna að því að gera sprengjurnar óvirkar í samstarfi við áhöfn varðskips Landhelgisgæslunnar, lögreglu, hafnaryfirvöld og Flugmálastjórn.  Reikna má með því að hávær hvellur heyrist í nágrenninu þegar sprengjurnar springa.  Það skal ítrekað að almenningi er engin hætta búin.

 

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi    Adrian King sprengjusérfræðingur

 

 

 

Mynd:  Teikning af bandarískri MK 49 djúpsjávarsprengju.