Tveir menn björguðust er bátur sökk á Þerneyjarsundi

Þriðjudagur 16. september 2003.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar heyrðu neyðarkall frá skemmtibátnum Ingu Dís kl. 21:05 í kvöld en báturinn var þá staddur á Þerneyjarsundi.  Tilkynnt var að báturinn væri að sökkva. 

Áhöfn TF-LIF var nýkomin úr sjúkraflugi til Vestmannaeyja og gat því brugðist skjótt við en þyrlan var komin í loftið kl. 21:23.  Stuttu eftir flugtak var tilkynnt að mennirnir hefðu komist upp á pramma og væru úr allri hættu.  TF-LIF sveimaði þó yfir svæðinu í 10 mínútur þar til ljóst var að ekki væri þörf á aðstoð.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi