Þyrla Landhelgisgæslunnar send til aðstoðar franskri eins hreyfils flugvél

Mánudagur 7. júlí 2003.

Flugmálastjórn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 8:44 í morgun vegna franskrar eins hreyfils flugvélar sem lent hafði í vanda vestur af Reykjanesi þegar mótorar hennar misstu afl.  Tveir menn voru í vélinni en hún er af gerðinni PA-46.  Vélin var á leið frá Frakklandi til Bandaríkjanna en fyrirhugað var að taka eldsneyti á Íslandi.  Óskaði Flugmálastjórn eftir að þyrla færi til móts við flugvélina eins fljótt og hægt væri. 

Áhöfn TF-LIF var strax kölluð út og einnig óskað eftir þyrlum varnarliðsins.  Í framhaldinu hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við Tilkynningarskylduna til að afla upplýsinga um skip á svæðinu.

Flugmálastjórn upplýsti kl. 9:00 að TF-FMS, flugvél flugmálastjórnar, væri farin til móts við frönsku flugvélina og að hún héldi nokkurn veginn hæð og hraða.

TF-LIF fór í loftið kl. 9:19.  Ákveðið var að TF-LIF héldi sig 20 sjómílur vestur af Garðskaga og fylgdi vélinni til Reykjavíkur.  Um kl. 10:06 tilkynnti TF-LIF að franska flugvélin væri lent heilu og höldnu á Reykjavíkurflugvelli.  TF-LIF lenti þar kl. 10:13.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands