Sprengjuhleðsla úr seguldufli fannst í Djúpavogi

Fimmtudagur 26. júní 2003.

Í síðustu viku fannst 136 kg. TNT spengjuhleðsla úr bresku seguldufli frá seinni heimstyrjöldinni á brotajárnshaug á Djúpavogi.

Undanfarið hefur staðið yfir hreinsunarátak í Djúpavogi og í nærsveitum.  M.a. hefur verið safnað bílflökum og gömlum heyvinnuvélum auk annars brotajárns.  Mikið magn hafði safnast í síðustu viku og voru menn frá endurvinnslufyrirtækinu Hringrás komnir á staðinn til að vinna úr því sem safnast hafði.  Brotajárnið er sett í pressu sem gerir það auðveldara til flutnings.

Sigurður Gíslason sem starfar sem bílstjóri og kranamaður á Djúpavogi átti leið hjá brotajárnshaugnum við loðnubræðsluna og rak þá augun í hlut sem hann kannaðist við frá því að hann starfaði sem lögreglumaður fyrir 15-16 árum síðan.  Á þeim tíma hafði hann farið með sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar til að eyða tundurdufli sem skip hafði fengið í trollið og sá strax að um sambærilega sprengju var að ræða. Hann lét lögregluna á staðnum strax vita af þessu. 

Lögreglan girti svæðið af og tók myndir af hlutnum sem sendar voru Landhelgisgæslunni.  Síðan fékk lögreglan leiðbeiningar frá sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar um hvernig best væri að geyma sprengjuhleðsluna þar til þeir kæmu á staðinn. Sprengjuhleðslan var sett í fiskikar sem var fyllt með vatni.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar komu til Djúpavogar sl. þriðjudag og staðfestu grun Sigurðar.  Þarna var um að ræða 136 kg. TNT sprengjuhleðslu úr bresku seguldufli en það er dufl sem springur við röskun á segulsviði, t.d. þegar skip siglir framhjá því.  Sprengjuhleðslan var síðan flutt inn á Starmýrarfjörur þar sem henni var eytt.  Hávaðinn sem hlaust af sprengingu hleðslunnar heyrðist í allt að 10 km. fjarlægð.

Sprengjuhleðslan hafði legið í u.þ.b. 50-60 ár við bóndabæinn Starmýri í nágrenni Djúpavogar. Við rannsókn málsins kom í ljós að sprengjuhleðslan hafði einu sinni verið leiktæki barna þar um slóðir.  Nýlega var hún tekin upp á vörubíl og sturtað niður hjá loðnubræðslunni. Það má teljast mildi að Sigurður bar kennsl á sprengjuhleðsluna því  mjög alvarlegt slys hefði getað hlotist ef hún hefði verið sett í brotajárnspressu eins og fyrirhugað var  þar sem hleðslan hefði að öllum líkindum sprungið í pressunni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Hleðslan er mjög öflug, eða samsvarandi um 1/4 tonni af dynamiti, hefði tætt pressuna og þeytt málmbrotum allt að 1,5 kílómetra vegalengd.  

Bretar lögðu tugum þúsunda tundurdufla í sjóinn suðaustur af landinu í seinni heimstyrjöldinni til þess að hindra þýska kafbáta í að sigla inn á Atlantshafið og ráðast þar á skipalestir sem fluttu vistir og hergögn til Bretanna.  Afleiðingin var sú að þúsundir  tundurdufla  voru á reki og mikinn fjölda rak á fjörur landsins. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa eytt mörgum þeirra en líklegt er talið að fjölmörg dufl séu grafin í sand víðsvegar við suðausturströnd landsins.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

 

Mynd/Landhelgisgæslan: Sprengjuhleðslan var sett í fiskikar sem fyllt var með vatni þar til sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar komu á staðinn.

Mynd/Landhelgisgæslan: Stór gígur myndaðist þar sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengdu hleðsluna.