Kaldastríðstól rak á fjörur við Skjálfandafljótsós

Fimmtudagur 10. apríl 2003.

 

Í síðustu viku fékk sprengjudeild Landhelgisgæslunnar tilkynningu frá lögreglunni á Húsavík um að grunsamlegur hlutur hefði fundist í fjörunni vestan við Skjálfandafljótsós.  Hluturinn reyndist vera hlustunardufl frá fyrrum Sovétríkjunum.  Það var 3.2 metrar að lengd, 76 cm. í þvermál og 1200 kg. að þyngd.  Það er hluti úr keðju slíkra dufla sem notuð voru af Rússum til að nema hljóð frá kafbátum og skipum sem nálguðust strendur þeirra á kaldastríðsárunum. 

 

Duflið  hefur líklega slitnað frá festingum sínum og hefur verið á reki mánuðum saman áður en það rak á fjöruna við Skjálfandafljótsós.  Það er ekki hættulegt að öðru leyti en því að það getur skapað siglingahættu fyrir minni skip og báta.

 

Fjölda slíkra dufla hefur áður rekið á fjörur hér á landi og þar á meðal á svipuðum slóðum t.d. á Tjörnesi fyrir tveimur árum.  Á síðustu 30 árum hafa slík dufl rekið á fjörur um allt land.

 

Þó svo að hlustunarduflið sem fannst við Skjálfandafljótsós sé einungis hættulegt vegna stærðar og þyngdar sinnar þá eru margir hlutir sem reka á fjörur stórhættulegir og má þar nefna tundurdufl, djúpsprengjur og jafnvel tundurskeyti ásamt fjölda annarra smærri hluta sem eru ekki síður hættulegir.  Þeir sem finna slíka hluti verða að hafa í huga að þeim er beinlínis ætlað að valda tjóni. 

 

Ýmsir hlutir hafa þó ekki verið framleiddir með það í huga að valda hættu eða tjóni en innihalda samt sem áður sprengiefni sem notað er til að sökkva þeim þegar þeir hafa gegnt sínu hlutverki.

Því má segja að ef slíkir hlutir finnast í fjöru og ef slíkur búnaður er í þeim, þá hefur hann af einhverjum orsökum ekki virkað.  Hvað þarf til að framkalla virkni er útilokað að segja en það gæti þess vegna verið næsta hreyfing á hlutnum.  Varast ber að snerta eða koma nálægt slíkum hlutum og nauðsynlegt er að tilkynna Landhelgisgæslunni eða lögreglu strax um fund á þeim og gefa eins greinargóðar upplýsingar um staðsetningu og útlit þeirra og unnt er.

 

Nánari upplýsingar um hættulega hluti er að finna á heimasíðu Landhelgisgæslunnar í dálkinum fræðsla/stríðstól.  

 

Mynd: Lögreglan á Húsavík / Rússneskt hlustunardufl frá kaldastríðsárunum.