Tveir skipverjar björguðust eftir að Röst SH-134 sökk út af Snæfellsnesi

Miðvikudagur 19. mars 2003.

Tveir menn náðu að komast í björgunarbát eftir að báturinn Röst SH-134 sökk út af Svörtuloftum á Snæfellsnesi í dag.  Ekki voru fleiri í áhöfn bátsins.  Þeim var síðan bjargað um borð í grænlenska loðnuskipið Siku sem statt var í grenndinni.  Björgunarsveitarmenn á björgunarskipinu Björg á Rifi sóttu mennina og sigldu með þá til hafnar.

Flugstjórn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 16: 50 og tilkynnti að flugvél á norð-vesturleið hefði numið neyðarsendingar innst í Breiðafirði.  Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF,  var þegar kölluð út og Flugmálastjórn beðin að senda flugvél sína, TF-FMS, strax af stað til leitar.  TF-LÍF fór í loftið kl. 17:39.
 
Leitarsvæðið var gríðarlega stórt í fyrstu en skömmu eftir að TF-FMS fór frá Reykjavík kl. 17:30 nam hún neyðarsendingar og gat miðað þær út.  Á sama tíma námu gervihnettir sendingarnar og gáfu staðsetningar út af Snæfellsnesi. Laust fyrir kl. 18 tilkynnti TF-FMS um björgunarbát út af Svörtuloftum við Snæfellsnes.  Skammt frá björgunarbátnum voru tvö loðnuskip, Sighvatur Bjarnason og grænlenska skipið Siku en TF-LÍF var skammt undan. 
 
Áhöfn Siku bjargaði tveimur mönnum úr gúmmíbjörgunarbátnum en þeir reyndust vera skipverjar af m/b Röst SH-134 sem hafði sokkið. Mennirnir voru heilir á húfi en fleiri skipverjar höfðu ekki verið um borð í m/b Röst.  Þegar ljóst var að ekkert amaði að mönnunum var þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél Flugmálastjórnar snúið til Reykjavíkur .
 
Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands