Eldsneytistankur af orustuflugvél fannst við Þórshöfn

Lögreglan á Þórshöfn hafði samband við Landhelgisgæsluna sl. sunnudag og tilkynnti um stóran torkennilegan hlut sem hafði rekið á land í nágrenni Þórshafnar.  Eftir rannsókn kom í ljós að um var að ræða varaeldsneytistank fyrir Tornado orustuflugvél.  Tankurinn er 3.5 metra langur og getur rúmað 1500 lítra af flugvélaeldsneyti. 

 

Starfsmenn sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar gerðu viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að ekki stafaði hætta af tankinum og afhentu hann síðan lögreglunni á Þórshöfn.  Tankurinn verður  seinna sendur með varðskipi til Reykjavíkur.

 

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar höfðu samband við breska flugherinn vegna tanksins en þar á bæ voru menn afar áhugasamir og vildu sækja hann strax.  Þar fengust nákvæmar leiðbeiningar um tæknileg atriði og öryggisráðstafanir sem gera þarf vegna tanksins. 

 

Það er mönnum ráðgáta hvernig tankurinn lenti í sjónum en það hefur gerst fyrir minna en tveimur árum ef marka má merkingar á honum.  Það getur hafa gerst vegna óhapps eða sem ráðstöfun til að bregðast við hættu í flugi. Hjá breska flughernum er nú verið að rannsaka hvað olli því að tankurinn endaði á ströndum Íslands. 

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands

 

 

Mynd/Landhelgisgæslan: Varaeldsneytistankur af Tornado orustuflugvél í fjörunni í nágrenni Þórshafnar.