Um eftirlit varðskipsáhafna Landhelgisgæslunnar

Í Fréttablaðinu 7. mars sl. er haft eftir skipstjóra og útgerðarmanni m/b Bjarma BA-326 að varðskipsmenn Landhelgisgæslunnar hafi komið 18 sinnum um borð í skipið án sjáanlegra ástæðna og að Fiskistofa hafi “sigað” varðskipum Landhelgisgæslunnar á Bjarma.

Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hafa löggæslumenn á varðskipum farið þrisvar sinnum um borð í Bjarma til skoðunar síðan í nóvember 2001.  Í öll skiptin var gild ástæða fyrir því að farið var um borð.

Fiskistofa “sigar” ekki varðskipum á skip og báta.  Landhelgisgæslan hefur með  höndum almenna löggæslu á hafinu umhverfis Ísland, jafnt innan sem utan landhelgi samkvæmt 1. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 25/1967. Löggæslumenn á varðskipum Landhelgigæslunnar fara um borð í á fjórða hundrað skipa í íslenskri lögsögu á ári.  Samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar er mjög gott og vinna þessir aðilar náið saman vegna málefna er varða stjórnun fiskveiða.

 

Önnur ummæli sem útgerðarmaður og skipstjóri Bjarma hefur eftir starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í framangreindri frétt eiga ekki við rök að styðjast. 

 

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd/Árni Sæberg: varðskip á siglingu.