Björgunarsveitarmenn fundu vélsleðamenn sem saknað hafði verið á Langjökli. TF-LÍF tók þátt í leit og flutti vélsleðamennina til Reykjavíkur

Mánudagur 10. mars 2003.

Björgunarsveitarmenn fundu í morgun tvo vélsleðamenn sem leitað hafði verið að á Langjökli.  TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, hafði einnig tekið þátt í leitinni og flaug með vélsleðamennina tvo til Reykjavíkur.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning kl. 14:46 sunnudaginn 9. mars um að leit væri að hefjast að þremur vélsleðamönnum á Langjökli.  Á svæðinu var kafald og lítið skyggni og því ekki talið hentugt að senda þyrlu til leitar.  Björgunarsveitarmenn fundu einn mannanna heilan á húfi laust fyrir miðnætti sl. nótt.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafði samband við stjórnstöð kl. 4:08 í morgun og óskaði eftir þyrlu til leitar um morguninn.  Laust fyrir kl. 5 var stjórnstöð síðan tilkynnt að björgunarsveitarmenn hefðu fundið sleða annars mannsins. Óskað var eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar flytti mann með leitarhund á svæðið.

TF-LÍF fór í loftið kl. 7:45 og var björgunarsveitarmaður með leitarhund um borð.  Vegna aðstæðna á jöklinum var ekki talið líklegt að hundurinn kæmi að gagni og fór hann því aldrei til leitar á jöklinum.

Um kl. 10:45 höfðu björgunarsveitarmenn samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og fóru fram á að Landhelgisgæslan hefði milligöngu um að óska eftir aðstoð og búnaði slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, svokallaðrar Orion-sveitar, sem er björgunarsveit slökkviliðsins.    Heimild fékkst frá yfirstjórn Varnarliðsins.  Þá var þyrlusveit Varnarliðsins einnig í viðbragðsstöðu vegna leitarinnar.

TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli til eldsneytistöku kl. 11 eftir leit um morguninn.  Hálftíma síðar hafði Slysavarnarfélagið Landsbjörg samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að mennirnir væru fundnir heilir á húfi en kaldir og hraktir.  Þeir fundust  milli Jökulkróks og Fögruhlíðar sem er skammt inn af Þjófadölum.  Óskað var eftir þyrlu til að sækja þá.

TF-LÍF hélt aftur af stað frá Reykjavík kl. 11:46 að sækja mennina og lenti með þá við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 13:12 í dag.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd: Landhelgisgæslan/flugdeild.  Myndirnar voru teknar við Jökukrók í dag er áhöfn TF-LÍF sótti vélsleðamennina tvo.