Varðskipsmenn skipta um öldudufl

Meðfylgjandi myndir voru nýlega teknar vestur af Blakksnesi á Vestfjörðum er skipverjar á varðskipinu Tý unnu við að skipta um öldudufl.  Duflin hafa þann tilgang að mæla ölduhæð og eru upplýsingar úr þeim sett á heimasíðu Siglingastofnunar þar sem sjómenn geta séð, áður en þeir halda í siglingu, hver ölduhæðin er á þeim hafsvæðum sem duflin eru staðsett á. Það er mikið öryggisatriði fyrir sjómenn að hafa þessar upplýsingar.

 

Skipta þarf duflunum út á nokkurra mánaða fresti þar sem rafhlöður þeirra hafa takmarkaðan endingartíma. Landhelgisgæslan sér um að skipta um duflin fyrir Siglingastofnun.  Starfsmenn Siglingastofnunar sjá um að yfirfara þau og skipta um rafhlöður í þeim.  Komið hefur fyrir að skip sigla á duflin og þau skemmast eða þau týnast. Sem dæmi má nefna að ölduduflið við Garðskaga slitnaði eitt sinn upp og fannst fyrir rest inni á Breiðafirði.

 

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Siglingastofnunar er hæð öldu mæld frá öldudal að næsta öldutoppi.  Notuð eru tvö gildi fyrir öldu, kennialda sem er 2,7 m. og meðaltalssveiflutími í sek. 

 

Öldudufl eru staðsett við Garðskaga, Blakksnes, Straumnes, Malarhorn, Grímseyjarsund, Hornafjörð, Surtsey, Grindavík og Kögur.

 

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands

 

 

Mynd:Landhelgisgæslan/Jón Páll Ásgeirsson stýrim.  Guðjón Óli Sigurðsson háseti hreinsar ölduduflið sem verið var að skipta út.  Mikill gróður sest á duflin með tímanum.

Mynd: Landhelgisgæslan/Tómas Pálsson háseti á v/s TÝ.  Duflið tilbúið í léttbát varðskipsins Týs.  Frá vinstri eru Guðjón Óli Sigurðsson háseti, Jón Árni Árnason bátsmaður og Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður.