Sjómælingamenn á námskeiði í úrvinnslu dýptarmælingagagna

Fimmtudagur 30. janúar 2003.

Sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar og tveir starfsmenn hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins hafa undanfarið setið námskeið í úrvinnslu dýptarmælingagagna.  Eins og fram kom í frétt á heimasíðunni þann 9. ágúst í fyrra, fékk Landhelgisgæslan lánaðan fjölgeislamæli hjá bandaríska sjóhernum og hafði hann til umráða þar til fyrstu vikuna í október sl. 

Hingað til hefur Landhelgisgæslan eingöngu haft eingeislamæli til sjómælinga. Munurinn á slíkum mæli og fjölgeislamæli er sá að eingeislamælirinn mælir einn punkt á hafsbotni í einu en fjölgeislamælirinn sýnir heildstæða botnmynd. Kostir við notkun fjölgeislamælis eru miklir á grunnsævi þar sem hætta er á skipsströndum ef mönnum sést yfir eina mishæð á botninum.

Úrvinnsla mælingagagna úr fjölgeislamælinum er frábrugðin úrvinnslu slíkra gagna úr eingeislamæli og reyndist nauðsynlegt, bæði fyrir sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar og hafrannsóknarstofnunar bandaríska sjóhersins, að fá kennslu í notkun sérhæfðs hugbúnaðar til úrvinnslu gagnanna. Til að draga úr kostnaði sameinuðust þessir tveir aðilar um að halda námskeið hér á landi og kom leiðbeinandi frá alþjóða hugbúnaðarfyrirtækinu CARIS sem sérhæfir sig í framleiðslu hugbúnaðar til mælinga og kortagerðar.

Æfingaverkefni námskeiðsins var úrvinnsla mælingagagna sem safnað var síðastliðið sumar með fjölgeislamælinum yfir og umhverfis Klettinn í Húllinu, suð-vestur af Reykjanestá.  Við úrvinnsluna kom í ljós að Kletturinn er einungis efsti hlutinn af umfangsmiklu neðansjávarklettabelti.  Þessi nýja tækni felur í sér byltingu hvað varðar öflun upplýsinga um hafsbotninn og framsetningu þeirra.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd: Sigurður Ásgrímsson deildarstjóri tæknideild LHG:  Nemendurnir , Björn Haukur, Skip, Scott, Ágúst, og Ásgrímur ásamt Veronique leiðbeinanda. Til hliðar, á tjaldinu, má sjá móta fyrir Klettinum í Húllinu sem var æfingaverkefni námskeiðsins.