Fjörutíu og þrjú ár frá komu varðskipsins Óðins

Mánudagur 27. janúar 2003.

Í dag eru liðin 43 ár frá því að varðskipið Óðinn kom til landsins. Árið 1960 var Óðinn talinn veglegt skip en hann er 880 lestir að stærð og ganghraði 18 sjómílur. Það var Eiríkur Kristófersson skipherra sem tók við þessu nýjasta og stærsta gæsluskipi flotans.  Þá var fiskveiðilögsagan 12 sjómílur eða alls 75.000 ferkílómetrar og alls sex varðskip við löggæslustörf á hafinu, Albert, María Júlía, Sæbjörg, Þór og Ægir auk nýja Óðins.  

Í dag er fiskveiðilögsagan 200 sjómílur eða alls 754.000 ferkílómetrar.  Nú eru aðeins tvö varðskip við gæslustörf en það er sögulegt lágmark.  Þetta jafngildir því að eitt skip gæti 377.000 ferkílómetra svæðis en við komu Óðins árið 1960 var eitt varðskip fyrir hverja 12.500 ferkílómetra. Í dag eru á varðskipunum 36 manns eða 18 í hverri áhöfn.  Árið 1960 voru hins vegar varðskipsmenn alls 114 en skiptingin var þannig að 27 manna áhafnir voru á þremur skipum og 11 manna áhafnir á öðrum þremur. Á þessum tíma var ein flugvél notuð við eftirlit á hafinu eins og í dag en síðan þá hafa 2 þyrlur bæst við sem aðallega eru notaðar við björgunarstörf og lítillega við eftirlit. 

Fyrir 11 árum, á 32. ára afmæli varðskipsins, skrifaði Sigurður Steinar Ketilsson skipherra grein í Gæslutíðindi um Óðinn.  Þar segir m.a.:

Hinn 27. janúar 1960 kom til landsins nýtt og fullkomið varðskip til Landhelgisgæslunnar sem hlaut nafnið Óðinn.  Þetta er þriðja varðskip Landhelgisgæslunnar sem ber það nafn. Skipinu var fagnað innilega af miklum mannfjölda og blöktu fánar víða við hún í tilefni af komu skipsins.  Bjarni Benediktsson þáverandi dómsmálaráðherra flutti ávarp af stjórnpalli skipsins, bauð skip og skipshöfn velkomna og árnaði sérstaklega forstjóra Landhelgisgæslunnar og skipherra heilla og sagði að þeir væru fyrirmyndar fulltrúar íslensku Landhelgisgæslunnar.  Forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn, embættismenn, starfsmenn Landhelgisgæslunnar og stjórn SVFÍ skoðuðu skipið í fylgd Péturs Sigurðssonar forstjóra, einnig var skipið almenningi til sýnis.  Í fyrstu ferð skipsins fór það hringinn í kringum landið, var forráðamönnum, velunnurum Landhelgisgæslunnar og almenningi á hinum ýmsu stöðum úti á landi boðið um borð.

Landhelgisgæslan hafði gert ráð fyrir að kostnaður við viðhald á vélum Óðins, skv. kröfum flokkunarfélags varðskipanna, Lloyds Register of Shipping, næmi 40-80 milljónum króna á þessu ári.  Við skoðun á fjórum stimplum í aðalvélum skipsins kom í ljós að ástand þeirra var í góðu lagi og var þá ákveðið af flokkunarfélagi skipsins að ekki þyrfti að taka upp fleiri stimpla í vélunum.  Nú lítur út fyrir að kostnaður við að koma Óðni í nothæft ástand verði um 12 milljónir en ef ekkert hefði verið gert við skipið hefði verðgildi þess verið metið til brotajárns.

Vegna þessa telur Landhelgisgæslan mun heppilegra að gera Óðinn út áfram, á meðan beðið er eftir nýju varðskipi, heldur en að leggja Óðni og leigja hafrannsóknarskip en það kostar u.þ.b. milljón á dag. Auk þess fylgir því talsverður kostnaður að útbúa skip Hafrannsóknarstofnunar og skrá það til landhelgisgæslustarfa. Takist að koma Óðni í haffært ástand er hægt að nota það áfram og jafnvel selja það.  Vegna þessa telur Landhelgisgæslan æskilegt að þær 24 milljónir, sem fjárveitingavaldið hefur ætlað Landhelgisgæslunni til leigu á hafrannsóknarskipi, fari í að auka skiparekstur stofnunarinnar.

Á meðfylgjandi myndum má sjá móttökurnar þegar varðskipið Óðinn kom til landsins 27. janúar 1960 og kort sem sýnir útfærslur fiskveiðilögsögunnar.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands