Stýrimenn Landhelgisgæslunnar í starfsþjálfun á slysadeild

Mánudagur 20. janúar 2003.

Stýrimenn Landhelgisgæslunnar hafa verið í starfsþjálfun á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss.  Stýrimennirnir hafa all flestir sótt sjúkraflutninganámskeið og eru fullgildir sjúkraflutningamenn.  Þeir hafa tekið vaktir á sjúkrabifreiðum höfuðborgarinnar með vissu millibili til þess að fá þjálfun í að bregðast við slysum og veikindum og við bætist þessi starfsþjálfun á slysadeildinni.

Í starfi sínu þurfa stýrimenn Landhelgisgæslunnar að vera vel undir það búnir að takast á við slys og veikindi sem verða á hafinu og úti á landi, bæði stýrimenn á varðskipum og í flugdeild.

Góð samvinna er milli Landhelgisgæslunnar og slysadeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss en þess ber að geta að læknir frá spítalanum er ávallt í áhöfn þyrla Landhelgisgæslunnar í björgunar- og sjúkraflugi.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd:   Stýrimennirnir Gunnar Örn Arnarson og Jón Páll Ásgeirsson  ásamt læknum af slysadeildinni, þeim Sigurði Kristinssyni (fyrsta lækninum sem fór með varðskipi í Smuguna) og Snorra Björnssyni.