Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bjargaði sex manna áhöfn norsks flutningaskips

Þriðjudagur 31. desember 2002 kl. 6:40.

 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bjargaði 6 manna áhöfn norska flutningaskipsins Icebear kl. 5:37 en þá var skipið að sökkva 73 sjómílur suð-austur af Dalatanga.  Þyrlan TF-LÍF kom með skipbrotsmennina til Hafnar í Hornafirði kl. 6:36.

 

Kl. 00:48 hafði loftskeytastöðin í Reykjavík samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að norska flutningaskipið Icebear væri að sökkva 95 sjómílur suð-austur af Dalatanga. Um sama leyti barst stjórnstöðinni tilkynning um málið frá björgunarstjórnstöðinni í Stavanger. Sex menn voru um borð og voru þeir að fara í björgunarbúninga um það leyti og komin 30° slagsíða á skipið.    

 

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og fór TF-LÍF í loftið kl. 01:48.  Fyrst var flogið til Hafnar í Hornafirði þar sem nauðsyn bar til að taka eldsneyti áður en haldið var út á haf.

 

Áhöfn Icebear hafði komið sér í björgunarbát er TF-LÍF kom á svæðið og var hann á reki 1 sjómílu frá skipinu sem þá var statt 73 sjómílur suð-austur af Dalatanga.  Um kl. 5:37 voru allir mennirnir komnir um borð í TF-LÍF en þá var komin 40-50° slagsíða á skipið.  Ástand áhafnar var gott að sögn stýrimanns / sigmanns í áhöfn TF-LÍF.  Veður var ágætt á svæðinu.

 

Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hafði Icebear lagt af stað frá Neskaupstað í fyrradag með saltsíldarfarm áleiðis til Finnlands.  Skipstjóri Icebear er íslenskur en áhöfnin frá Litháen.  Björgunarskipið Hafbjörg frá Neskaupstað og varðskip Landhelgisgæslunnar eru á leið að skipinu.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands