Landhelgisgæslan hefur móttekið 1500 Schengen-tilkynningar á árinu

Mánudagur 30. desember 2002.
 
Dómsmálaráðuneytið fól Landhelgisgæslu Íslands að annast móttöku tilkynninga frá skipum vegna Schengen upplýsingakerfisins með reglugerð um vakstöðvar og tilkynningarskyldu flytjenda í mars á síðasta ári. Landhelgisgæslan annast móttöku upplýsinga frá öllum skipum og bátum sem koma erlendis frá og eru á leið til Íslands.
 
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur frá gildistöku reglugerðarinnar í mars 2001 afgreitt um 2700 tilkynningar um komur skipa til Íslands, þar af um 1500 á árinu 2002. Í tilkynningunum eru upplýsingar um komu til landsins, áhöfn og farþega um borð í skipunum.  Samkvæmt reglugerðinni ber Landhelgisgæslunni að framsenda tilkynningarnar til Ríkislögreglustjóra. 
 
Heilmikil vinna hefur farið í að leiðbeina skipstjórum um hvernig tilkynningarnar eiga að vera og fá leiðréttingar frá þeim eða umboðsmönnum þeirra þegar þegar tilkynningar hafa ekki verið í samræmi við lög og reglur. Í sumum tilfellum eru þessar tilkynningar mjög viðamiklar enda hafa komið hingað farþegaskip með yfir 3000 manns um borð.
 
Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands