Veiðar erlendra skipa í íslensku efnahagslögsögunni árið 2002

Föstudagur 27. desember 2002.

Landhelgisgæslan hefur eftirlit með veiðum allra erlendra fiskiskipa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Skipunum er yfirleitt gert að vera búin fjareftirlitsbúnaði sem tilkynnir sjálfvirkt staðsetningu skipanna á klukkustundar fresti til stjórnstöðva heimalanda sinna.  Upplýsingar um staðsetningu skipanna eru síðan sendar sjálfvirkt til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar um leið og þau sigla inn í íslenska efnahagslögsögu.  Gagnkvæmir samningar um fjareftirlit eru nú í gildi milli Íslands, Færeyja, Grænlands, Noregs og Rússlands. Auk þess tilkynna skipin daglega um veiddan afla, komur og brottfarir úr fiskveiðilögsögunni.

 

Um 150 erlend fiskiskip tilkynntu stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um afla árið 2002, samtals um 206.330 tonn. Þar af tilkynntu bresk skip um 1141 tonn, þýsk um 522 tonn, færeysk um 105.972 tonn, grænlensk um 42.167 og norsk skip um 56.529 tonn.

 

Af afla færeysku skipanna voru um 70.095 tonn kolmunni og 31.855 tonn loðna en Færeyingar eru ekki búnir með loðnukvótann sinn á vertíðinni. Færeyskum skipum var heimilt að veiða samtals 5000 tonn af botnfiskafla í íslenskri fiskveiðilögsögu árið 2002 en þau tilkynntu um 4.022 tonna botnfiskafla.

 

Af afla norsku skipanna voru 56.130 þúsund tonn loðna. Norskum skipum sem höfðu leyfi til línuveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi var heimilt að veiða samtals 500 tonn af keilu, löngu og blálöngu m.v. afla upp úr sjó. Auk þess var þeim heimilt að veiða alls 125 tonn af öðrum tegundum. Norsku línuskipin tilkynntu samtals um 399 tonna heildarafla.

 

Skipum frá Evrópusambandinu var heimilt að veiða 3000 lestir í lögsögunni. Þau tilkynntu 1663 tonna afla, þ.e. bresk og þýsk skip.

 

Norskum skipum var heimilt að veiða 94.200 tonn af síld innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á árinu 2002, færeyskum skipum 46.420 tonn og rússneskum skipum 3.700 tonn. Engar tilkynningar um síldarafla hafa borist á árinu.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands.