Höfðingleg gjöf til kaupa á nætursjónaukum

Mánudagur 2. desember 2002.

Bræðurnir Leifur Jónsson, Jón, Ríkharður og Ólafur Magnússynir hafa gefið eina milljón og tvö hundruð og fimmtán þúsund krónur í söfnun Landhelgisgæslunnar fyrir nætursjónaukum. Gjöfin er til minningar um móður þeirra Kristínu Finnbogadóttur, og látna bræður þeirra, þá Finnboga og Pálma Magnússyni.  Bræðurnir eiga það allir sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið skipstjórar.

Leifur hafði orð fyrir þeim bræðrum er gjöfin var afhent.  Hann sagði þá lengi hafa langað til að veita einhverju málefni lið til minningar um móður þeirra og bræður.  Þeim hafi fundist vel við hæfi að gefa fé til fjármögnunar nætursjónaukum hjá Landhelgisgæslunni enda minnast þeir móður sinnar þannig að hún hafi ávallt lagt sig fram um að aðstoða aðra og veita þeim hjálp og liðsinni sem á þurftu að halda. Þá voru bræður þeirra heitnir, þeir Finnbogi og Pálmi, skipstjórar en sjónaukarnir auka öryggi og geta skipt sköpum við björgun sjófarenda að nóttu til og í slæmu skyggni.

Leifur minntist þess er hann var formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Hellissandi og varð vitni að því er áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-SIF bjargaði áhöfn Barðans, samtals 9 manns, er skipið hafði strandað við Hólahóla á Snæfellsnesi árið 1987.  Björgunarsveitarmönnum fannst hart að geta ekki gert neitt til hjálpar og horfa upp á stýrishúsið fyllast af sjó og mennina í bráðri hættu.  Tilfinningin breyttist er þeir sáu TF-SIF koma fljúgandi í suðvestanveðri og éljagangi.

Það voru þeir Leifur, Jón og Ríkharður sem afhentu gjöfina en Ólafur var á sjó og gat því ekki verið viðstaddur.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands