Dómstólar vega og meta gildi fjareftirlitskerfis fiskiskipa

Þann 3. desember næstkomandi verður tekið fyrir í Hæstarétti mál ákæruvaldsins gegn norska loðnuskipstjóranum Lovde Gjendemsjö en 12. nóvember 2001 var hann dæmdur í Héraðsdómi Austurlands til að sæta upptöku á afla að verðmæti 4,5 milljónir og greiða 2,5 milljónir í sekt í Landhelgissjóð vegna ólöglegra veiða innnan íslensku fiskveiðilögsögunnar N-V af Horni. 

 

Það sem er óvenjulegt við dóm Héraðsdóms Austurlands var að Lovde var ekki staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi eins og segir í dóminum, heldur byggðist ákæran á gögnum sem fengin voru úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi.  Gögnin bárust frá Noregi til Landhelgisgæslunnar. Með gervihnattatækni senda skipin sjálfvirkt upplýsingar um staðsetningu til stjórnstöðvar í Noregi. Samkvæmt gagnkvæmum samningi milli Noregs og Íslands um fjareftirlit, fær Landhelgisgæslan upplýsingar frá Noregi um leið og norsk skip fara inn fyrir lögsögumörk Íslands. 

 

Er dæmt var í málinu var ekki vitað um sambærilega dóma erlendis enda er sjálfvirkt fjareftirlitskerfi tiltölulega nýtt af nálinni.  Þó höfðu borist fréttir frá Noregi um að skip hefði verið svipt veiðileyfi vegna upplýsinga úr fjareftirlitskerfi, en skipstjórinn sagðist hafa veitt afla sinn á tilteknum stað á tilteknum tíma en samkvæmt upplýsingum úr fjareftirlitskerfi var skipið  þá statt í höfn. Landhelgisgæslan hefur  einnig haft spurnir af svipuðum málum í Portúgal.

 

Nú er staðfest að dómur hefur gengið annars staðar en á Íslandi um gildi fjareftirlitskerfisins sem sönnunargagns um ferðir fiskiskipa. Í frétt á heimasíðu NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration)  er sagt frá úrskurði sem kveðinn var upp í Bandaríkjunum 5. desember 2001 gegn skipstjóra bandaríska skipsins Indipendence, Lawrence M Yacubian, en úrskurðað var á grundvelli upplýsinga úr sjálfvirku fjareftirlitskerfi. 

 

Haft var eftir stjórnanda hjá NOAA að stofnunin reiði sig sífellt meira á gervihnattatækni til að fylgjast með veiðum nálægt lokuðum veiðisvæðum.  Ákærandi frá NOAA sem fór með málið sagði að þessi úrskurður setji mikilvægt fordæmi með því að staðfest er að VMS-kerfið (Vessel Monitoring System), sem hörpudiskveiðiskipum á svæðinu er skylt að nota, er nákvæm og áreiðanleg tækni sem hefur möguleika á að framleiða sönnunargögn um ferðir skipa sem unnt er að leggja fram í dómstólum.  Sjá frétt á heimasíðu NOAA:

 

http://www.publicaffairs.noaa.gov/releases2001/dec01/noaa01r153.html

 

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands