Fallbyssuæfingar á Ægi og Tý

Fimmtudagur 26. september 2002.

Í septembermánuði hafa áhafnir varðskipanna ÆGIS og TÝS æft notkun fallbyssa um borð í skipunum undir styrkri stjórn sprengjusérfræðings Landhelgisgæslunnar.  Slíkar æfingar eru haldnar með reglubundnu millibili.  Æfingunum lauk með því að skotið var af fallbyssunum úti á Faxaflóa og var mikil samkeppni milli skipsáhafnanna um hvor þeirra væri betur þjálfuð og ætti bestu skytturnar.  Æfingarnar gengu mjög vel og var óvenjulega hátt hlutfall skota sem hittu beint í mark þrátt fyrir breytilegt veður og sjólag.

Fallbyssurnar, sem eru af gerðinni Bofors L60 með 40 mm. hlaupvídd, geta skotið 120-160 skotum á mínútu eða tveimur til þremur skotum á sekúndu á skotmörk í allt að þriggja kílómetra fjarlægð frá varðskipinu.  Til að skjóta af byssunni þarf þriggja manna byssuáhöfn auk yfirmanns í brú sem gefur upplýsingar um fjarlægð og stefnu á skotmarkið og veitir heimild til að skjóta.

Dagmar Sigurðardóttir
upplýsingafulltrúi

 
Linda Ólafsdóttir háseti á Ægi undirbýr næsta skot.