Leitað að neyðarsendi

Mánudagur 23. september 2002.

Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 11 í morgun vegna daufra neyðarsendinga sem farþegaflugvél frá flugfélaginu SAS hafði numið 20 sjómílur austur af Hornafirði. 

Stuttu síðar nam önnur farþegaflugvél, stödd norður af Hornafirði, einnig daufar neyðarsendingar.  Í framhaldi af þessu voru ferðir skipa og flugvéla við Suðausturland kannaðar. Ekkert óvenjulegt kom í ljós við þá athugun. 

Þrátt fyrir þetta var talið nauðsynlegt að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, til leitar og einnig var óskað eftir flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS.  Vél Flugmálastjórnar fann síðar sendinn í sjónum um 32 sjómílur suð-suðaustur af Hornafirði kl. 14:08. 

Þyrlu Landhelgisgæslunnar var í framhaldi af því beint á staðinn.  Náði sigmaður taki á neyðarsendinum og kom honum um borð í þyrluna kl. 15:23 þar sem slökkt var á honum.  Auðséð var að sendirinn hafði verið talsvert lengi í sjónum.  Í ljós kom að hann var skráður á bát sem seldur var í brotajárn til Noregs árið 1996. 

Líklegt er talið að neyðarsendirnn hafi verið settur í annan bát á sínum tíma án þess að breyta skráningarnúmeri hans.  Vegna þessa er ekki hægt að vita frá hvaða báti neyðarsendirinn er og það getur reynst afdrifaríkt þegar hættuástand skapast.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands