Kostnaðarsöm leit að báti sem sinnti ekki tilkynningarskyldu

Laugardagur 21. september 2002.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rétt fyrir kl. sex í morgun og óskaði eftir aðstoð við leit að trillunni Katrínu GK-17 í fyrstu dagsbirtu.  Trillan hafði tilkynnt sig út frá Reykjavík kl. 18:50 í gær.  Hafði eigandi trillunnar lánað hana mönnum sem sögðust vera á leið í siglingu til Grundarfjarðar en þeir ætluðu m.a. að skemmta sér við skotveiði og veiði með sjóstöng á leiðinni.  Áhöfn trillunnar hafði ekki tilkynnt sig aftur til Tilkynningarskyldu íslenskra skipa og ekki var hægt að ná í áhöfnina með farsíma eða á annan hátt.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fór í loftið kl. 7:12 og hélt út yfir Syðra og Vestra Hraun og þaðan siglingarleið að Malarrifi.  Frá Malarrifi fylgdi þyrlan fjöru að Öndverðarnesi og fór þaðan til Grundarfjarðar. Frá Grundarfirði hélt þyrlan 2 sjómílur vestur fyrir að Malarrifi og strönd var fylgt þaðan inn Mýrar.  Þá var haldið frá Akranesi að Garðskaga og síðan 6 sjómílur fyrir jökul og 4 sjómílur til baka að Malarrifi.  Þaðan var flogið suður af Búðargrunni til Reykjavíkur.

Um kl. 12:25 hafði Tilkynningarskylda íslenskra skipa samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og lét vita að Katrín GK-17 væri fundin við Vestmannaeyjar og að skipverjar væru heilir á húfi.  Hafði þyrlan þá samtals flogið 4 klukkustundir í leit að trillunni en kostnaður Landhelgisgæslunnar fer fyrir 1 og hálfa milljón króna.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands